Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Áhugahópurinn þrýstir á Vegagerð.
Þriðjudagur 12. júlí 2005 kl. 14:37

Áhugahópurinn þrýstir á Vegagerð.

-Útboðsgögn tilbúin eftir 4-6 vikur segir Jónas Snæbjörnsson.
 
Á fjölmennum borgarafundi sem áhugahópur um örugga Reykjanesbraut hélt þann 11. febrúar s.l. lofaði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra að seinni hluti brautarinnar yrði boðin út nú í sumar við mikinn fögnuð fundargesta. Síðan hefur lítið gerst.

Að sögn Steinþórs Jónsson, formanns áhugahópsins, hyllir nú loks í að þessi loforð nái fram að ganga. „Við höfum verið í reglulegu sambandi við Vegagerðina síðustu vikur og mánuði til að fá fréttir um gang mála enda ljóst að málið hefur dregist miðað við þau loforð sem gefin voru á fundinum. Í morgun, á fundi með áhugahópunum, áttum við síðan stutt spjall við Jónas Snæbjörnsson umdæmistjóra Vegagerðarinnar símleiðis þar sem hann tjáði okkur að gerð útboðsgagna væri í fullum undirbúningi og yrðu þau tilbúin innan 4-6 vikna.“

Miðað við þessar upplýsingar ættu verktakar að geta fengið útboðsgögnin á tímabilinu 2 – 16 ágúst n.k. en þá fá verktakar 37 daga til að skila inn tilboðum sem samkvæmt þessu verður um miðjan september. „Við munum fylgja þessu eftir til loka enda mikil pressa frá fólki að þessar tímasetningar standi. Ég fór formlega fram á það við Jónas í morgun að hann sæi til þess að gögnin væru klár eftir 4 vikur því hver vika skiptir máli,“ sagði Steinþór. „Á þeim tímapunkti mun áhugahópurinn vera í sambandi við verktaka til að þrýsta á framkvæmdartímann sem að okkar mati má ekki vera nema 6-8 mánuðir.“

„Einnig munum við í framhaldinu skoða betur umferðaröryggi á Reykjanesbrautinni m.a. uppsetningu vegriða sem við teljum nauðsynlegt öryggistæki. Í síðustu viku fór einn bíl t.d. yfir á rangan vegarhelming á nýja kaflanum þegar bílstjórinn fékk aðsvif eða krampa. Sem betur fer urðu ekki slys á fólki en þarna sannaðist það, sem áður hefur verið haldið fram, að ellefu metra svæði milli brautanna dugar ekki án vegriða,” sagði Steinþór.
 
Að lokum má geta þess að áhugahópurinn er með í undirbúningi aðild að umferðaröryggis verkefni í stærri mynd en þeir hafa tekið þátt í hingað til enda ljóst að hættur leynast víðar en á Reykjanesbrautinni eins og við Suðurnesjamenn höfum verið minnt svo rækilega á síðustu mánuði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024