Áhöfnin á Happasæli KE verðlaunuð fyrir björgunarafrek
Áhöfnin á Happasæli KE-94 eru menn ársins á Suðurnesjum árið 2003 fyrir frækilega björgun tveggja skipverja sem fóru í sjóinn eftir að Gamli lóðs sökk úti fyrir Hafnarbergi á Reykjanesi þann 16. desember sl.
Klukkan var 01:30 og blaðamaður Víkurfrétta var mættur um borð í Happasæl KE-94 þar sem mynda átti menn ársins, áhöfnina sem bjargaði tveimur mönnum úr sjónum þann 16. desember á síðasta ár þegar dráttarbáturinn Gamli Lóðs sökk úti fyrir Hafnarbergi á Reykjanesi. Áhöfn Happasæls sýndi mikið snarræði með björgun mannanna og þykir ljóst að þeir hafi bjargað lífi skipverja á Gamla lóðsinum því þeir voru báðir nokkuð kaldir og hraktir eftir rúmlega 20 mínútna svaml í sjónum.
Sjómannslífið gott
„Þetta sjómannslíf er bara helvíti gott. Fín útgerð og það er farið vel með okkur,“ sögðu skipverjarnir á Happasæli einum róm þegar þeir voru spurðir að því hvernig þeim líkaði á sjónum. Þeir hafa verið lengi saman á sjónum. Sá sem styst hefur verið um borð hefur verið í tæp fjögur ár. Áhöfnin samanstendur af 10 hressum köllum; köllum sem kalla ekki allt ömmu sína, enda hefur það í gegnum tíðina þótt mikið hraustleikamerki að sækja sjóinn.
Hver róður á Happasæli tekur um 12 klukkustundir að sögn Hallgríms Guðmundssonar skipstjóra. „Í nótt verðum við komnir á miðin um fjögurleytið og verðum að öllum líkindum komnir í land um tvö í dag,“ sagði Hallgrímur en stýrimaður um borð í Happasæli er Hafþór Þórðarson sem var skipstjóri þegar mönnunum af Gamla lóðs var bjargað. Hafþór er 26 ára gamall og hefur stundað sjóinn frá 17 ára aldri. „Fyrir utan tvö ár sem ég var í stýrimannaskólanum hef ég verið á sjónum,“ segir Hafþór og þegar hann er spurður hvort um æðar hans renni sjómannsgen, svarar hann: „Maður er af góðum sjómannsættum og það kom ekkert annað til greina en að fara á sjóinn,“ segir Hafþór og brosir, en hann er systursonur Hallgríms skipstjóra sem segir að þeir standi sig allir vel – öll áhöfnin. „Þetta eru allt saman hetjur,“ sagði Hallgrímur og sló á bakið á Hafþóri.
Einstakur mórall um borð
„Mórallinn um borð er bara einstakur,“ segja strákarnir og þeir kunna mjög vel við sig. „Það eru allir pikkfastir hér og hreyfa sig hvergi,“ segir Hafþór og áhöfnin kinkar kolli til samþykkis, en Happasæll fiskaði um 1.300 tonn á síðasta ári.
Þeir sækja sjóinn stíft og á meðan aðrir sofa eru þeir oft að vinna og þegar aðrir eru að vinna eru þeir oft í fríi. „Maður fær einn og hálfan mánuð í frí yfir sumartímann og síðan koma brælur inn á milli, en það gerist sem betur fer ekki oft,“ segir Hafþór. Veðurspáin spilar stóran þátt í lífi sjómanna og þegar Hallgrímur skipstjóri er spurður út í veðurspána segir hann að hann sé að norðan.
Strákarnir eru ekkert að gorta sig af því að hafa bjargað mönnunum af Gamla lóðs úr sjónum. Þeir líta á það sem skyldu sína að gera hvað sem þeir geta til að bjarga mannslífum í sjávarháska. En þeim líður vel að hafa bjargað mönnunum. „Maður er bara ekkert nema ánægður með að hafa bjargað þeim,“ segir Hafþór.
Smá kría á útleið
Búið var að bera snitturnar um borð og þeim komið fyrir á góðum stað – þeir ætluðu að bragða á þeim áður en þeir færi á dekk eftir rúma tvo tíma. „Maður fær sér kannski smá kríu á útleiðinni,“ sögðu strákarnir um leið og þeir þökkuðu fyrir sig.
Það voru engin læti þegar þeir gengu frá endunum og héldu út úr höfninni í Sandgerði. Klukkan var að ganga tvö og það var kalt úti. Þeir veifuðu blaðamanni vingjarnlega áður en þeir héldu í koju til að taka smá kríu. Það er gott að vita af þessum mönnum á sjó.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Áhöfnin á Happasæli: Frá vinstri: Helgi Björnsson háseti, Jóhannes Haraldsson háseti, Halldór G. Halldórsson 2. stýrimaður, Hafþór Þórðarson stýrimaður, Hallgrímur Guðmundsson skipstjóri, Kristinn Sörensen háseti, Guðbjartur Sævarsson 2. vélstjóri, Davíð Bragason yfirvélstjóri, Frímann Guðmundsson kokkur og Sigurvin Hauksson háseti.
Af vef Víkurfrétta 16. desember 2003 kl. 03:09:06
Héldu sér í björgunarhringi: bjargað á elleftu stundu
Mannbjörg varð í nótt er tveimur skipverjum af gamla Lóðsinum frá Vestmannaeyjum var bjargað úr sjónum úti fyrir Hafnabergi á Reykjanesi. Hjálparbeiðni var send út til nærstaddra skipa kl. 23:20 í kvöld en netaskipið Happasæll KE var næstur slysstað. Fyrstu upplýsingar bentu til þess að gamli Lóðsinn, sem er dráttarbátur, væri vélarvana þar sem hann var að draga pramma. Skömmu síðar sökk báturinn og tók prammann með sér. Tveir skipverjar voru á gamla Lóðsinum og höfðu þeir komið björgunarbáti fyrir við skipshlið en höfðu ekki blásið hann upp þegar gamli Lóðsinn sökk skyndilega að aftan. Báturinn sökk á um einni mínútu, að því er skipverjar á Happasæli KE sögðu í samtali við blaðamenn Víkurfrétta í Sandgerði í nótt. Skipbrotsmennirnir af gamla lóðsinum fóru báðir í sjóinn og héldu sér á floti við björgunarhringi þegar Happasæll kom á slysstað. Annar mannanna var í flotbúningi, en hinn í kafarabúningi. Annar þeirra var orðinn mjög kaldur að sögn skipverja á Happasæli KE og hefði ekki mátt vera í sjónum mikið lengur. "Hann skalf mjög mikið og við drifum hann beint í heita sturtu og létum hann fá þurr föt. Lappirnar á honum voru orðnar bláar og það er alveg ljóst að hann hefði ekki lifað af mikið lengur í sjónum," sagði Frímann Guðmundsson matsveinn á Happasæli KE í samtali við Víkurfréttir.
Hafþór Þórðarson skipstjóri á Happasæli KE sagði að þegar þeir komu að mönnunum í sjónum hafi þeir verið með vasaljós og búnir að binda björgunarhringina saman. "Við sáum þá strax og það er ekki spurning að vasaljósið bjargaði mönnunum. Það gekk vel að ná þeim um borð, en þeir voru búnir að vera í sjónum í um 20 mínútur," sagði Hafþór í samtali við Víkurfréttir.
Komið var með skipbrotsmennina til Sandgerðis á öðrum tímanum í nótt. Skipverjar á gamla Lóðsinum voru með pramma í drætti úti af Hafnabergi þegar rafmagnið fór skyndilega af bátnum hjá þeim. Þá varð mönnunum ljóst að vélarrúmið var hálffullt af sjó. Á örskammri stund var dráttarbáturinn sokkinn og tók hann prammann með sér í djúpið. Þegar þetta er skrifað eru skipbrotsmenn í yfirheyrslum hjá lögreglunni í Keflavík. Þeir báðust undan viðtali þegar eftir því var leitað.
VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Efsta mynd: Lögreglumenn og skipbrotsmennirnir að týna til gallana sem mennirnir voru í og björgunarhringina í Sandgerði í nótt. Miðjumynd: Áhöfnin á Happasæli KE: Frímann Guðmundsson, Davíð Bragason, Halldór G. Halldórsson, Hafþór Þórðarson og Jóhannes Haraldsson. Neðsta mynd: Annar skipbrotsmannanna gengur ásamt lögreglumanni með björgunarhringina í lögreglubílinn í Sandgerði í nótt.