Áheyrnarfulltrúar ungmennaráðs verða í kjörnum nefndum og ráðum
Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt samhljóða að heimila nngmennaráði Reykjanesbæjar að tilnefna áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt á fundi fagnefnda og -ráða sveitarfélagsins, annarra en barnaverndarnefndar og bæjarráðs enda er bæjarráð ekki skilgreint sem fagnefnd eða -ráð.
Stjórn ungmennaráðsins mun fá fundarboð allra fagnefnda og -ráða. Ef ungmennaráðið vill hafa áheyrnarfulltrúa á fundum þá er því frjálst að gera það. Umsjónarmaður ráðsins bókar þá áheyrnarfulltrúa á næsta fund nefndarinnar/ráðsins samkvæmt fyrirfram samþykktum lista yfir áheyrnarfulltrúa ungmennaráðs. Um þá gilda sömu lög og reglur og aðra nefndarmenn, m.a. um trúnað og hæfi.
Um tilraun er að ræða sem hefst strax og stendur til loka yfirstandandi kjörtímabils. Á tilraunatímanum verður ekki greitt fyrir fundarsetuna. Að tilraunatímabili loknu verður reynslan metin og ákveðið af nýrri bæjarstjórn, í samráði við forstöðumenn málaflokka og ungmennaráð, hvort framhald verður á og hvernig því skuli háttað. Verði það niðurstaðan þarf að uppfæra erindisbréf nefnda og ráða ásamt samþykktir Reykjanesbæjar.