Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Áhersla lögð á vel heppnað samstarf
Ragnheiður Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá MSS.
Fimmtudagur 18. júní 2015 kl. 10:18

Áhersla lögð á vel heppnað samstarf

MSS þátttakandi í spennandi Evrópuverkefnum

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum er þátttakandi í nokkrum spennandi Evrópuverkefnum og er eitt þeirra verkefnið ELVETE (Employer Led Vocational Education and Training in Europe) sem Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður MSS og Ragnheiður Eyjólfsdóttir verkefnastjóri vinna að um þessar mundir.

„Í verkefninu er horft til þess bils er myndast oft á því hvaða menntun/starfsþjálfun ungt fólk hefur hlotið eða tileinkað sér í námi og hvernig sú útkoma helst í hendur við þarfir atvinnulífsins í viðeigandi geira. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markmið verkefnisins er að vekja athygli á góðum starfsháttum í starfsnámi og -þjálfun ungs fólks með því að deila upplýsingum og reynslusögum. Áhersla er lögð á hvernig samstarfi/tengingu við fyrirtæki í atvinnulífinu er háttað og einkum er vakin athygli á því ef það samstarf hefur skilað sér í breytingum eða aðlögun á námsskrám að þörfum atvinnulífsins,“ segir Ragnheiður í samtali við Víkurfréttir. 


Uppbygging verkefnisins er á þá leið að ákveðnir samstarfsaðilar skoða raundæmi á sínu starfssvæði í námi sem felur í sér starfsþjálfun eða er verklegt að hluta. „Hver aðili skilaði inn fjórum slíkum raundæmum og hjá MSS urðu fyrir valinu Atvinnulínan hjá Samvinnu, sem felst að mestu endurhæfingu og starfsþjálfun, Fisktækninám hjá Fisktækniskóla Íslands, sem er stutt og mjög starfstengt nám þar sem önnur hver önn er kennd á vinnustað. Tvær iðngreinar sem kenndar eru hjá FS voru einnig teknar fyrir, rafvirkjanám og trésmíðar.“ 


Ragnheiður segir að rannsóknirnar muni verða aðgengilegar á vefsíðu verkefnisins, einnig samanburðar- og niðurstöðuskýrslur þar sem áhersla verði lögð á vel heppnað samstarf og sameiginlega fleti milli rannsókna og landa. Seinni hluti verkefnisins snúist svo um að taka upplýsingarnar sem safnað hafi verið í fyrri hlutanum og teikna upp módel af námsskrá sem verði tilraunakeyrð hjá tveimur af samstarfsaðilunum yfir sex mánaða tímabil.

Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu verkefnisins. 

ELVETE samstarfsverkefnið er fjármagnað með styrk frá Evrópusambandinu sem fellur undir Lifelong Learning Programme (undirverkefni í Leonardo da Vinci).