AGC stefnir Reykjanesbæ og Thorsil aftur
- Vegna lóðar í Helguvík sem úthlutað var til Thorsil
AGC ehf. hefur á ný stefnt Thorsil, Reykjanesbæ og Reykjaneshöfn vegna lóðar í Helguvík sem fyrirtækið telur sig hafa fengið loforð um að fá að leigja. Frá þessu er sagt á Vísi. AGC hafði áform um að reisa þar lífalkóhól- og glýkólverksmiðju. Lóðinni hefur nú verið úthlutað til fyrirtækisins Thorsil sem hyggst reisa þar kísilverksmiðju.
Vísið er til tölvupósts í stefnunni sem Pétur Jóhannsson, þáverandi hafnarstjóri, sendi í ágúst árið 2011. Í þeim pósti kom fram vilyrði fyrir því að AGC ehf. fengi lóðina. Í framhaldinu vann fyrirtækið umhverfismat. Í apríl 2014 gerði Reykjaneshöfn svo samning við Thorsil um leigu á lóðinni.
AGC ehf. hafði áður stefnt Thorsil, Reykjanesbæ og Reykjaneshöfn en þeirri stefnu var vísað frá Héraðsdómi Reykjaness á dögunum því þess var ekki krafist að úthlutun lóðarinnar til Thorsil yrði hnekkt.