Ágætis helgarveður: hægir vindar en nokkuð kalt
Það lítur ágætlega út með helgarveðrið á suðvestanverðu landinu. Veðurstofan gerir ráð fyrir hæglætisveðri, hægri norðlægri eða breytilegri átt hér syðra og frosti á bilinu 4 til 14 stigum.
Klukkan þrjú voru norðvestan 8-13 m/s norðaustan- og austanlands, annars hægari norðlæg eða breytileg átt. Víða él á norðanverðu landinu, en bjartviðri syðra. Frost 3 til 11 stig, kaldast á Mýri í Bárðardal.
Veðurhorfur á landinu til kl.18 á morgun:
Norðlæg átt, víða 3-8 m/s, en 8-13 norðaustanlands í kvöld og nótt. Dálítil él norðantil á landinu, annars bjartviðri. Minnkandi norðvestanátt norðaustantil í fyrramálið og norðlæg átt, 5-10 um landið norðanvert á morgun, en hæg norðlæg eða breytileg syðra. Skýjað með köflum og él nyrðra og með suðurströndinni. Frost 4 til 14 stig, kaldast til landsins.