AG Seafood ehf. kaupir Farsæl ehf.
AG SEAFOOD ehf í Sandgerði hefur fest kaup á öllum hlutum í Farsæli ehf. frá Grindavík og munu félögin sameinast undir merkjum AG Seafood. Farsæll ehf. ræður yfir skipi með sama nafni og er aflamark þess 375 þorskígildi. Eigendur Farsæls, þ.e. bræðurnir Grétar og Hafsteinn Þorgeirssynir, munu við samrunann eignast hlut í félaginu, taka sæti í stjórn og stýra útgerðarhluta AG SEAFOOD.
Kaup AG SEAFOOD á Farsæli styðja við áframhaldandi vöxt félagsins. Á þeim 5 árum sem eru liðin frá stofnun þess hafa eigendur og starfsfólk byggt upp fyrirtækið. Eftir samrunann munu u.þ.b. 50 manns starfa hjá félaginu. Félagið flutti nýverið í mikið endurbætt 3000 fermetra húsnæði í Sandgerði. Við þann flutning þrefaldaði félagið framleiðslugetu sína, sem er mikilvægt í ljósi mikillar eftirspurnar eftir afurðum þess. Með samrunanum getur félagið því staðið enn betur undir aukinni eftirspurn eftir afurðum.
Velta AG SEAFOOD hefur margfaldast á starfstímanum. Gera áætlanir ráð fyrir því að tekjur þess verði 1,4 milljarðar króna á rekstrarárinu 2014, sem lætur nærri að vera 40% aukning frá árinu 2013.
Afurðir AG SEAFOOD eru að mestu fluttar út til Spánar, Bretlands, Bandaríkjanna, Hollands og Kanada. Útflutnings- og markaðsfyrirtækið IceMar ehf. og AG SEAFOOD hafa frá upphafi starfað mjög náið saman og hefur IceMar annast alla sölu og markaðssetningu á afurðum AG SEAFOOD. Eftir samrunann hefur félagið yfir að ráða útgerð, öflugri vinnslu og starfa í nánum tengslum við öflugt sölu- og markaðsfyrirtæki, sem skiptir miklu máli varðandi frekari uppbyggingu.
Framkvæmdarstjóri AG SEAFOOD er Arthur Galves. Stjórnarformaður Gunnar Örlygsson. Þeir eru stofnendur, og hafa hingað til verið einu eigendur AG SEAFOOD.
AG SEAFOOD vill af þessu tilefni þakka LANDSBANKANUM sérstaklega fyrir aðkomu hans að samrunanum, en bankinn hefur stutt dyggilega við bakið á því og haft trú á stefnu þess frá stofnun.
Þá fær lögmannsstofan BONAFIDE miklar þakkir fyrir góð og fagleg vinnubrögð í gegnum flókið samrunaferlið. Síðast en ekki síst vilja eigendur félagsins þakka starfsmönnum sínum fyrir frábær störf á umliðnum árum, segir í tilkynningu.