Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Aftur kveikt upp í ofni kísilvers United Silicon
Umhverfisstofnun gerði athugasemd við að mæli vantaði í rjáfur hreinsivirkis. Nú er stefnt að því að koma slíkum upp fyrir Þorláksmessu. VF-mynd/hilmarbragi
Miðvikudagur 14. desember 2016 kl. 14:37

Aftur kveikt upp í ofni kísilvers United Silicon

- Umhverfisstofnun átelur United Silicon vegna rangra upplýsinga

Umhverfisstofnun hefur veitt United Silicon heimild til að kveikja aftur á brennsluofni kísilvers í Helguvík en slökkt var á honum í byrjun síðustu viku vegna vinnuslyss. Kveikt var upp í ofninum aðfararnótt þriðjudags. Í kjölfarið gaf Umhverfisstofnun fyrirtækinu þau fyrirmæli að kveikja ekki aftur á ofninum fyrr en ýmsar úrbætur á starfseminni yrðu gerðar. Í bréfi sem stofnunin sendi United Silicon 8. desember síðastliðinn kemur fram að meðal athugasemda séu að mæli fyrir reyk í rjáfri hreinsivirkis vantaði, afsog og hreinsun útblásturs var ófullnægjandi og frágangur á lóð og geymsla spilliefna ábótavant. Þá gerði stofnunin athugasemd við að ekki hafi verið tilkynnt um mengunaróhöpp og ekki heldur um að slökkt hefði verið á ofninum.

Verksmiðjan tók til starfa síðasta haust og var kveikt upp í ofninum 11. október. Upp úr miðjum nóvember fóru íbúar í Reykjanesbæ að finna fyrir reyk- og lyktarmengun og hafa Umhverfisstofnun borist fjöl margar ábendingar þess efnis. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í bréfinu frá 8. desember segir að Umhverfisstofnun telji að undirbúningur gangsetningar hafi verið ónógur og að stjórnun mengunarvarna sé verulega ábótavant í starfsemi verksmiðjunnar. Frávikum fari fjölgangi og ekki verði séð að rekstraraðili sé að ná að bæta úr með fullnægjandi hætti. Bréfið verður aðgengilegt á vef Umhverfisstofnunar og á vef United Silicon á næstunni.

Kísilver United Silicon í Helguvík. Umhverfisstofnun hefur gert athugasemd við að ekki hafi verið tilkynnt um mengunaróhöpp. Mynd/elg

Þar sem úrbætur hafa verið gerðar á starfsemi United Silicon og aðrar eru í farvatninu aflétti Umhverfisstofnun fyrirmælum um að hafa slökkt á ofni kísilversins. Þá tilkynningu sendi stofnunin í bréfi 12. desember síðastliðinn. Í því kemur fram að stofnunin hafi fengið staðfestingu á því að keyptur hafi verið mælir til að setja upp í rjáfur á reykhreinsiviki og að hann muni koma til landsins við fyrsta tækifæri. Fulltrúar fyrirtækisins sýndu fulltrúm Umhverfisstofnunar kvittun fyrir greiðslu á mælinum. Áætlað er að hann verði settur upp fyrir 23. desember næstkomandi. Í bréfinu kemur fram að á samráðsfundi með United Silicon 11. nóvember síðastliðinn hafi komið fram að búið væri að kaupa mæli og hann kominn til landsins en að veðuraðstæður hömluðu uppsetningu. Í bréfinu segir orðrétt: „Miðað við ofangreinda staðfestingu á greiðslu voru það ekki réttar upplýsingar og átelur stofnunin fyrirtækið vegna þessa. Ávallt er mikilvægt að fyrirtæki komi á framfæri réttum upplýsingum við eftirlit og á fundum. Ef vitneskja liggur ekki fyrir á fundi er rétt að koma nánari upplýsingum á framfæri síðar.“

 

Hér má sjá stiklu úr nýjasta þætti Suðurnesjamagasíns Sjónvarps Víkurfrétta