Aftur brotist inn í Holtaskóla: Þjófarnir handteknir
Á öðrum tímanum í nótt var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir inni í Holtaskóla í Keflavík. Þegar lögreglumenn komu á staðinn veittu þeir athygli tveimur mönnum sem voru á hlaupum frá skólanum. Lögreglumönnum gekk greiðlega að rekja slóð mannanna í hnédjúpum snjónum og voru mennirnir handsamaður í næsta nágrenni. Í ljós kom að mennirnir höfðu brotist inn í skólann. Þeir voru vistaðir í fangaklefum og voru yfirheyrðir með morgninum. Menn þessir eru liðlega tvítugir að aldri og tilheyra þeim vafasama hópi manna sem kallast góðkunningjar lögreglunnar.
Myndin: Frá innbroti í Holtaskóla í síðustu viku.