Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Áframhaldandi meirihluti D og K í Sandgerði
Miðvikudagur 31. maí 2006 kl. 10:43

Áframhaldandi meirihluti D og K í Sandgerði

D-listi sjálfstæðismanna og K-listinn í Sandgerði undirrituðu í gær samstarfssamning um meirihluta í bæjarstjórn. Sigurður Valur Ásbjarnarson, efsti maður á D-lista, mun áfram sinna starfi bæjarstjóra og Óskar Gunnarsson verður forseti bæjarstjórnar.

Listarnir voru í meirihlutasamstarfi á síðasta kjörtímabili og segir í tilkynningu frá aðilum að það hafi verið byggt á trausti milli framboða og baklands þeirra og flestar lykilákvarðanir hafi verið teknar í sameiningu.
Hins vegar hafi minnihlutinn sett sig upp á móti þeim ákvörðunum, auk þess sem þáverandi minnihluti hafi hafnað samstarfi við K-lista á síðasta kjörtímabili.

Markmið, stefnumál og áherslur D og K fari vel saman og reynsla og styrkur oddvita framboðanna sá til þess fallinn að Sandgerðisbær getur orðið í fremstu röð sveitarfélaga á næstu árum.

Ítarlegur verkefnalisti liggur þegar fyrir í öllum málaflokkum og ákveðið hefur verið að jöfn skipan verði í nefndir og formennsku verði með sama hætti og á síðasta kjörtímabili.

Áherslur listanna eru að rekstur bæjarfélagsins verði jákvæður öll árin. Framkvæmdir verði í samræmi við gefin loforð, Skuldir standi í stað miðað við eignir. Eiginfjárhlutfall fari ekki undir 0.5, veltufjárhlutfall fari ekki undir 1.00, skattaálögur verði ekki auknar á kjörtímabilinu og að þjónustugjöld verði ávallt með því lægsta sem gerist á Suðurnesjum.

Forgangsverkefni þeirra eru að hafa trausta fjármálastjórn og náið samráð við íbúa, lág þjónustugjöld og/eða skattar, gott, heilbrigt og fagurt mannlíf, lagfæring Strandgötu og umhverfisátak, lagfæring útrásar og þar með möguleika til að opna glæsilegt útivistarsvæði þar sem sandfjaran teygir sig yfir stórt svæði norðan við höfnina og loks stækkun grunnskóla og leikskóla í samræmi við þarfir.

Mynd/Reynir Sveinsson<>
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024