Áframhaldandi fjölgun íbúa í kortunum
Vantar aðeins sex nýja bæjarbúa til að verða stærri en Akureyri
Ef fram fer sem horfir þá verður Reykjanesbær orðinn fjórða stærsta sveitarfélag Íslands á næstu dögum því um áramót munaði aðeins fimm manns á íbúastærð Reykjanesbæjar og Akureyrar, sem hefur vermt fjórða sætið um áratuga skeið. Íbúum Reykjanesbæjar fjölgar hraðar en íbúum Akureyrar og því gæti Reykjanesbær verið orðinn stærri strax um næstu mánaðamót. Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár Íslands um íbúafjölda í ársbyrjun.
Íbúar í Reykjanesbæ voru 18.922 þann 1. janúar. Bæjarbúum fjölgaði um 40 frá 1. desember sl. þegar þeir voru 18.882. Þá voru íbúar Reykjanesbæjar 17.732 þann 1. desember 2017 og því hefur íbúum bæjarins fjölgað um 1190 á þrettán mánuðum.
Grindvíkingum fjölgar einnig hratt. Þeim fjölgaði um 32 frá 1. des. 2018 til 1. janúar 2019. Þeir voru 3.429 í byrjun árs en voru 3.326 þann 1. des. 2017 og hefur því fjölgað um 103 á þrettán mánuðum.
Íbúum í Vogum fækkaði um einn milli mánaða og voru 1.287 í ársbyrjun. þeir voru 1.269 þann 1. desember 2017 og hefur því fjölgað um 18 á þrettán mánuðum.
Í Suðurnesjabæ voru íbúar 3.480 þann 1. janúar sl. Þeim fækkaði um 2 frá 1. des sl. en þann 1. desember 2017 voru íbúar sameinaða sveitarfélagsins 3.384 og hefur því fjölgað um um 96 á þrettán mánuðum.
Suðurnesjamenn voru alls 27.118 þann 1. janúar sl. Þeim fjölgaði um 69 á einum mánuði frá 1. desember 2018. Þá hefur Suðurnesjamönnum fjölgað um 1407 frá því 1. desember 2017.
Árið 2018 var 6,3% íbúafjölgun í Reykjanesbæ, 8,8% árið 2017 og 7,4% 2016. Á tímabilinu 2015–2018 var fjölgunin 24,8%. Af einstökum hverfum má nefna að fjölgunin á sama tímabili var 18,8% í Njarðvík, 11,2% í Keflavík, 4,7% í Höfnum og 106,5% á Ásbrú.
„Það sem skýrir þessa miklu fjölgun eru margir þættir. Á undanförnum árum hefur verið mikill uppgangur í ferðaþjónustu og samfara honum uppbygging flugstöðvarinnar. Það hefur kallað á mannafla. Það má líka nefna að fólk hefur sótt í lægra húsnæðisverð en á höfuðborgarsvæðinu og þá horft meðal annars til Reykjanesbæjar,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við Víkurfréttir.
„Reykjanesbær er ekki síst eftirsóknarvert sveitarfélag sem um árabil hefur getað státað sig af því að vera fjölskylduvænt. Við höfum orðið vitni að ánægju fjölskyldna sem hingað hafa flust á undanförnum árum. Þó lægra húsnæðisverð hafi e.t.v. verið ástæða flutnings hefur það staðið upp úr hversu ánægt það er með bæjarbraginn og allar aðstæður hér.
Fjölgun íbúa þýðir einnig fjölgun starfa og hingað hefur flust fólk sem vill ekki aðeins starfa í Reykjanesbæ heldur einnig búa.
Þó fjölgunin á nýliðnu ári hafi verið hægari en árin þar á undan, m.a. vegna þess að það hægðist á framboði húsnæðis, þá er áframhaldandi fjölgun í kortunum. Mikið af íbúðahúsnæði verður tiltækt í Hlíðarhverfi og Dalshverfi á næstu mánuðum og viðbúið er að íbúafjölgun í þeim hverfum eigi eftir að taka kipp. Hins vegar hefur íbúafjölgun verðið mest á Ásbrú. Við sjáum að þar hefur íbúafjöldi vaxið um meira en 100% á tveggja ára tímabili, frá desember 2016 til desember 2018. Fór úr 1.655 íbúum í 3.418. Þar var framboð á húsnæði gott en nú er allt nothæft íbúðarhúsnæði fullnýtt,“ segir Kjartan bæjarstjóri.