Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Áframhald verði á heilsueflingu eldri íbúa
Fimmtudagur 30. júní 2022 kl. 13:50

Áframhald verði á heilsueflingu eldri íbúa

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að samið verði um áframhaldandi heilsueflingu eldri íbúa í Reykjanesbæ. Birgitta Rún Birgisdóttir, varabæjarfulltrúi, lagði fram bókun um málið á bæjarstjórnarfundi 21. júní síðastliðinn.

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að samið verði um áframhaldandi heilsueflingu eldri íbúa í Reykjanesbæ. Leggjum við til að bærinn kynni sér þá aðila sem bjóða upp á slíka heilsueflingu eða semji um áframhaldandi samstarf við Janus heilsueflingu. Jafnframt leggjum við til að samið verði við Janus heilsueflingu til skamms tíma á meðan meirihlutinn er að skoða alla möguleika, svo hægt verði að taka á móti nýju fólki í verkefnið næsta árið.

Teljum við afar mikilvægt að tryggja það að slíkt verkefni verði í boði í bæjarfélaginu til að draga úr félagslegri einangrun og efla líkamlegt þrek eldra fólks. Með hækkandi aldri bæjarbúa getum við ekki horft framhjá þeirri staðreynd að huga verði að þessum þáttum og teljum við það vera bæjarfélaginu til bóta að líkamleg og andleg heilsa eldri íbúa sé sem best. Teljum við að hvatagreiðslur einar og sér séu ekki sami hvati fyrir fólk á þessum aldri til að stunda reglulega hreyfingu eins og sá hvati sem fæst með námskeiði í líkingu við það sem í boði hefur verið, þar sem faglærður þjálfari bíður fólks og fylgist með mætingu og mælingar eru gerðar á heilsufari.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heilsuefling Janusar er tilraunaverkefni sem fór af stað í Reykjanesbæ árið 2017 og hefur gengið mjög vel. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, sagði vegna bókunarinnar að nauðsynlegt væri að ríkið kæmi með einhverjum hætti að heilsueflingu eldri borgara. Verkefnið hefur notið styrkja frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja sem og Reykjanesbæjar og hafa þátttakendur í verkefninu notið þess í lágu þátttökugjaldi. Heilsuefling Janus fékk ekki styrk í síðustu úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja. Í máli bæjarstjóra kom einnig fram að fleiri einstaklingar með menntun á sviði heilsueflingar hafa verið í sambandi við bæjaryfirvöld.