Áfram varað við stormi
Klukkan 06.00 í morgun var norðanátt, víða 18-23 m/s, en sums staðar hvassari í vindstrengjum við fjöll. Rigning eða slydda var á Norður- og Austurlandi, en annars skýjað með köflum og þurrt. Svalast var við frostmark norðan til, en hlýjast 10 stiga hiti á Fagurhólsmýri.
Við Færeyjar er víðáttumikil 970 mb lægð, sem þokast suðaustur og grynnist smám saman, en yfir Grænlandi er 1030 mb hæð.
Veðurhorfur á landinu til kl. 18 á morgun:
Viðvörun: Búist er við stormi (meira en 20 m/s) á austanverðu landinu í dag.
Norðanátt, víða 18-23 m/s og rigning eða slydda á Norður- og Austurlandi, en annars yfirleitt hægari og þurrt. Dregur smám saman úr vindi og léttir til vestanlands í dag, en áfram 18-23 og skúrir eða él austan til. Norðvestan 8-13 og skúrir eða slydduél austanlands á morgun, en annars 3-8 og bjart. Hiti 1 til 9 stig að deginum, hlýjast suðaustanlands.