Áfram ókeypis æfingagjöld í Grindavík
Foreldrar í Grindavík þurfa ekki að greiða æfingagjöld vegna íþróttaiðkunnar barna sinna. Samningar þess efnis voru undirritaðir í gær, eða öllu heldur framlengdir en þessu fyrirkomulagi var komið á tveimur árum.
Samningar þessir fjalla um framkvæmd barna og unglingastarfs, afnot deildanna af íþróttamannvirkjum Íþróttamiðstöðvar Grindavíkur og annan fjárstuðning Grindavíkurbæjar við deildir UMFG sem felst m.a. í að foreldrar þurfa ekki að greiða æfingagjöld fyrir börnin sín. Með unglingastarfi er átt við börn og unglinga frá 6 ára til og með 16 ára aldri.
Bæjarráð fól sérstakri nefnd að yfirfara samningana fyrr á árinu og voru lagðir til ákveðnar breytingar á þeim sem m.a. fólu í sér leiðréttingu á styrkupphæðum til deildanna og jafnræðis hvað varðar aldursskilgreiningar. Í fyrri samningum var ákvæði um vístölu hækkun styrkupphæða en í ljósi efnahagsástandsins náðist samkomulag við deildirnar um breytingu á því ákvæði og verða styrkupphæðir nú óbreyttar út samningstímann sem er til ársloka 2010.
--
Mynd/www.grindavik.is – Frá undirritun samninganna í gær.