Karlakórinn
Karlakórinn

Fréttir

Áfram miklar líkur á eldgosi
VF-mynd: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 7. mars 2024 kl. 18:29

Áfram miklar líkur á eldgosi

Uppfært hættumat. Svæði 2 og 3 hafa verið sameinuð í eitt svæði

Líkleg atburðarrás næstu daga:

  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi

  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur

  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells

Skjálftavirkni við kvikuganginn hefur farið minnkandi síðan á laugardag 2. mars, einkum síðustu daga þar sem fáir skjálftar hafa mælst. Veður hefur hins vegar deyft eða truflað skjálftamælana, svo líklega eru fleiri skjálftar, en allt smáskjálftar. Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofu Íslands.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Veðrið næstu sólarhringa er líklegt til að hafa áhrif á eftirlitskerfi Veðurstofunnar. Næsta sólarhringinn verður suðaustan strekkingur eða allhvass vindur með rigningu og takmörkuðu skyggni, einkum til fjalla. Í fyrramálið dregur úr úrkomu en á morgun og næstu daga er útlit fyrir stöku skúri og líklegt að skyggni verði lítið meðan þetta gengur yfir. Heldur dregur úr vindi um helgina, suðaustan stinningsgola eða kaldi á sunnudag.

Þensla heldur áfram undir Svartsengi og líkanreikningar byggðir á GPS gögnum frá 3.-6. mars sýna að um 1,2 milljón rúmmetrar af kviku hafa bæst við í kvikuhólfið þessa daga. Þannig að í heildina hafa rúmlega 10 milljón rúmmetrar af kviku safnast í kvikuhólfið. Staðan er því svipuð eins og hún var fyrir kvikuhlaupið 2. mars.

Uppfært hættumat

Veðurstofan hefur uppfært hættumat. Hættustig er óbreytt frá síðast korti. Ein breyting hefur verið gerð á skiptingu svæða. Svæði 2 og 3 hafa verið sameinuð í eitt svæði. Í ljósi þess hvernig virknin hefur þróast er ekki talin lengur ástæða til að meta hættu á þessum svæðum í tvennu lagi. Nýtt hættumat tók gildi kl. 15 í dag, fimmtudaginn 7. mars. Hættumatið gildir til 12. mars að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_7mars_2024
(Smellið á kortið til að stækka)