Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Áfram líkur á frekari gosopnunum
VF-mynd: Ísak Finnbogason
Þriðjudagur 19. desember 2023 kl. 18:19

Áfram líkur á frekari gosopnunum

Veðurstofan hefur gefið út nýtt hættumatskort byggt á túlkun nýjustu gagna og út frá stöðu virkninnar í eldgosinu við Sundhnúksgíga.

Hætta hefur aukist umtalsvert á öllum svæðum sem skilgreind voru á eldra hættumatskorti, svæði 1 – 4. Tvö ný svæði hafa bæst við kortið, svæði 5 – 6. Að öllu óbreyttu gildir þetta kort til fimmtudagsins 28. desember.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áfram dregur úr krafti gossins. Á nýjum yfirlitsmyndum af svæðinu sést að nú gýs úr þremur gosopum suðaustur af Stóra-Skógfelli, en gosopin voru áður fimm. Hraun hefur að mestu flætt í austur út frá eldstöðvunum, en einnig er hrauntunga að teygja sig í vestur fyrir norðan Stóra-Skógfell.

Frá því að gos hófst hafa um 320 skjálftar mælst yfir kvikugangingum. Stærsti skjálftinn mældist 4.1 að stærð klukkan 23:25. Eftir miðnætti hefur dregið töluvert úr skjálftavirkni og frá því klukkan 12 í dag hafa aðeins 10 skjálftar mælst.

Í kjölfar eldgossins við Sundhnúksgíga hefur land sigið um 7 cm í Svartsengi. Áður hafði land risið þar um 35 cm frá því að kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Of snemmt er að segja til um hvort kvika haldi svo áfram að safnast undir Svartsengi og land taki að rísa að nýju.

Á meðan að áfram gýs við Sundhnúksgíga eru auknar líkur á frekari gosopnunum, á upphaflegu sprungunni sem og lengra til norðurs eða suðurs. Ef horft er til aðdraganda gossins, þá liðu um 90 mínútur frá því að fyrstu merki sáust og þangað til að gos hófst. Miðað við upphaf gossins við Sundhnúk getur fyrirvari á nýjum opnunum því verið mjög stuttur.

Kortið sýnir mat á hættum sem eru til staðar og nýjum hættum sem gætu skapast með litlum fyrirvara innan tilgreindra svæða. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hættur geta leynst utan þeirra. Aðstæður innan og utan svæðanna geta breyst með litlum fyrirvara.