Áfram haldið með froðusnakkið, segir Guðbrandur - Óviðeigandi, segja sjálfstæðismenn
Guðbrandur Einarsson, oddviti A-listans í Reykjanesbæ, gagnrýnir harðlega efni nýlegrar fréttatilkynningar sem Reykjanesbær sendi frá sér og fjallar um niðurstöðu skýrslu Capacent um aðild Reykjanesbæjar að Eignarhaldsfélaginu Fasteign.
Guðbrandur segir fréttatilkynninguna í ósamræmi við umræðu á síðasta bæjarráðsfundi. Hún gefi tilefni til að ætla að „áfram verði haldið með froðusnakkið,“ eins og hann tekur til orða í bókun sem hann lagði fram á bæjarstjórnarfundi í gær.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks vísa fullyrðingum Guðbrands til föðurhúsanna. Tilraun hans til að gera persónu bæjarstjóra að aðalleikara í túlkun skýrslunnar sé óviðeigandi.
„Á þessum bæjarráðsfundi sem haldinn var án viðveru bæjarstjóra Árna Sigfússonar fóru fram hreinskiptar umræður um niðurstöður þessarar skýrslu. Var það samdóma álit þeirra sem um þetta fjölluðu á umræddum fundi að það hefði verið jákvætt að þessi skýrsla hefði verið unnin í samkomulagi allra bæjarfulltrúa. Bæjarráðsmenn voru sammála um að niðurstöður þessarar skýrslu væru að þátttaka í EFF hafi reynst Reykjanesbæ hagkvæm lengst af en við hrun krónunnar hefði húsaleiga hækkað verulega. Samanburður við önnur sveitarfélög væri ófullkominn og mörgum spurningum varðandi framtíð RNB í EFF væri ósvarað.
Því skýtur það skökku við að lesa það í fréttatilkynningu frá Reykjanesbæ þann 30. apríl sl. að eintóm sæla hafi fylgt og muni fylgja þátttöku í Fasteign hf. Þessi tilkynning er ekki í neinu samræmi við þá umræðu sem átti sér stað á umræddum bæjarráðsfundi og því hlýt ég að álíta að hún sé sett fram af bæjarstjóra einum án samráðs við þá sjálfstæðismenn sem sátu umræddan bæjarráðsfund,“ segir Guðbrandur meðal annars í bókun sinni.
Í bókun sem meirihlutinn lagði fram segir að niðurstaða Capacent staðfesti afdráttarlaust málflutning Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar varðandi Fasteign. Því sé það leitt að þegar svo afdráttarlaus niðurstaða liggi fyrir skuli oddviti minnihlutans „gera lítið út þeirri góðu vinnu Capacent, sem óháður aðili, hefur komist að í skýrslu sinni,“ segir í bókuninni.
„Fullyrðingum Guðbrands Einarssonar og tilraunum hans til að gera persónu bæjarstjóra að aðalleikara í túlkun á niðurstöðu skýrslunnar er vísað til föðurhúsanna og er óviðeigandi,“ segir þar ennfremur.
Bókanir frá bæjarstjórnarfundinum í gær má lesa í heild sinni hér