Áform um að stöðva starfsemi United Silicon
Umhverfisstofnun hefur tilkynnt United Silicon þau áform að stöðva starfsemi fyrirtækisins. Frá þessu var greint í hádegisfréttum RÚV. United Silicon hefur frest til föstudags til að gera athugasemdir.
Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, sagði í samtali við RÚV í hádeginu að ekki stæði til að fyrirtækið yrði svipt starfsleyfi og því þýði aðgerðirnar núna ekki að starfsemin stöðvist um ókomna tíð.
Starfsemi hófst í verksmiðjunni í nóvember síðastliðnum og síðan þá hafa íbúar í nágrenni við Helguvík fundið fyrir lyktarmengun og ýmsum óþægindum vegna hennar. Hátt í 400 athugasemdir þess efnis hafa borist til Umhverfisstofnunar.
Til stóð að Umhverfisstofnun myndi stöðva starfsemina fyrir páska en hætt var við þau áform þar sem stjórn United Silicon hafði ákveðið að ræsa ekki ofn verksmiðjunnar í næsta óvænta ofnstoppi sem myndi vara lengur en í klukkustund. Mengun frá verksmiðjunni hefur verið tengd við atvik þegar slökkva þarf á ofninum.