Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aflafréttir: Stóri Rússinn færður og rifinn
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
fimmtudaginn 5. september 2019 kl. 16:53

Aflafréttir: Stóri Rússinn færður og rifinn

Jæja þá er stóri, blái Rússinn farinn frá sínum viðverustað við Njarðvíkurhöfn en hann fór reyndar ekki langt, bara aðeins innar í höfnina þar sem á að rífa asbest úr honum og efri hlutann af skipinu. Svo verður það dregið í slippinn í Njarðvík þar sem það verður endalega rifið niður.

Hvaða dall er ég að tala um? Jú ég er að tala um Orlik sem er búið að vera draugaskip í Njarðvíkurhöfn. Aðeins út í sögu skipsins. Orlik var smíðaður árið 1983 í Rússlandi og voru ansi margir frystitogarar samskonar og hann smíðaðir í Rússlandi. Hann er 62 metra langur og 14 metra breiður og mælist um 669 tonn.

Orlik var búinn að stunda úthafs­karfaveiðar utan við 200 sjómílurnar djúpt úti af Reykjanesinu í stefnu frá Eldey, og hafði t.d. landað sumarið 2013, 1400 tonnum í 4 löndunum og mest 540 tonn í einni ferð.

Um haustið 2013 kom upp mikill eldur í togarnum þar sem hann lá í höfn í Hafnarfirði, en þar voru þessi skip (sem vanalega voru 2 saman) lögð og lágu þar allan veturinn þangað til þau fóru aftur á veiðar á úthafskarfa.

Síðan það kviknaði í skipinu þá hefur Orlik verið vandræðagripur bæði í Hafnarfirði og líka í Njarðvík. Var endalaust rifist um niðurrif á skipinu hvernig það átti að gerast og hver, og það var ekki fyrr en skipið fór að leka all hressilega fyrir nokkrum vikum síðan við Njarðvíkurhöfn og var hálfsokkið að skriður komst á málið. Þá var loks hægt að fá öll leyfi til þess að hefja niðurrif, en þar með var þetta mál búið að þvælast í kerfinu í um 6 ár.

Það er mikið verk að rífa þetta skip því skipið sjálft er um 1800 tonn að þyngd og gríðarlega mikið magn af stáli og öðru efni í skipinu. Gæti niðurrifið tekið um 4 til 6 mánuði. Grafinn var ansi mikill skurður innarlega í Njarðvíkurhöfn og á stórstreymisflóði. Þá var Orlik fleytt eins langt upp og hægt var. En nóg um þetta skip, allavega að sinni.

Nýr bátur kom til Suðurnesjabæjar, eða Sandgerðis. Þar er fyrirtækið Nýfiskur en það hafði um árabil gert út bátinn Von GK sem er 15 tonna plastbátur til línuveiða. Reyndar var Von GK gerð út af Útgerðarfélagi Sandgerðis sem Nýfiskur átti. Þegar Nesfiskur keypti Nýfisk þá var Útgerðfélag Sandgerðis líka með í kaupunum og eitt af fyrstu verkefnum var að skoða það að fá nýjan bát í staðinn fyrir Von GK sem hafði reynst Sandgerðingum mjög vel þau ár sem báturinn var gerður út. Von GK var smíðaður árið 2007 og alla tíð verið gerður út undir sama nafni.

Nýi báturinn er líka plastbátur og heitir Margrét GK 33 og er Viking bátur. Samskonar bátur og Margrét GK er á Hornafirði og heitir Vigur SF. Reyndar er Vigur SF 30 tonna bátur og um 15 metra langur, en Margrét GK er 21 tonna bátur og um 13,2 metra langur. Þetta nafn Margrét kemur frá Bæjarskerjum í Sandgerði en þaðan koma nokkur önnur nöfn sem eru á bátum frá Nesfiski, t.d nafnið Siggi Bjarna GK.
Pistlahöfundur óskar áhöfn og útgerð Margétar GK til hamingju með nýjan bát.

Gísli Reynisson
[email protected]


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024