Aflafréttir: Áramót í sjómennsku
Ágúst er síðasti mánuðurinn á fiskveiðiárinu 2018-2019. 1.september byrjar nýtt ár í fiskveiðum því kvótinn miðast alltaf við þennan dag eða frá 1.september til 31. ágúst hvert ár. Á meðan við hin fögnum áramótum 31.desember, þá fagna útgerðarmenn, og sjómenn áramótunum sínum 31.ágúst hvert ár. Júlí var ansi rólegur fyrir útgerð báta frá Suðurnesjum, margir bátanna fóru í slipp og fáir voru að róa. Nokkrir bátar voru á Norðurlandi. Þar var t.d. Beta GK sem var með 89 tonn í 22 róðrum og landaði á Siglufirði og Skagaströnd.
Stóru línubátarnir voru margir að eltast við keiluna og var t.d. Páll Jónsson GK með 285 tn í fjórum róðrum og af því var keila 45 tonn. Sighvatur GK var með 253 tn í fjórum róðrum og af því t.d. 30 tonn af karfa. Fjölnir GK 189 tonn í þremur róðrum, Kristín GK 163 tn í þremur róðrum. Af öðrum línubátum þá var t.d. Vésteinn GK með 151 tn í sautján róðrum.
Togararnir frá Nesfiski voru á rækjuveiðum í júlí og var Sóley Sigurjóns GK með 228 tn í fimm róðrum, þar af 138 tonn af rækju. Berglín GK 186 tonn í fimm róðrum,þar af 84 tonn af rækju. Netaveiðin var mjög góð í júlí og kemur það nokkuð á óvart. Netabátarnir voru allir á veiðum út frá Sandgerði og gekk mjög vel. Erling KE var með 129 tn í tólf róðrum, Maron GK 66 tn í sautján róðrum, Grímsnes GK 39 tn í níu róðrum en hann var að eltast við ufsann og var með 31 tonn af ufsa. Halldór Afi GK 28 tn í fjórtán róðrum.
Síðan er það þessi blessaði makríll sem allir taka núna eftir því mikið líf er t.d. í Keflavík og í sjónum út með ströndinni að Garðskaga og áleiðis til Sandgerðis. Þeim fjölgar bátunum sem stunda þessar veiðar og frá Grindavík er eini frystitogari landsins sem er á makríl og er það Hrafn Sveinbjarnarsson GK sem hefur landað núna um 900 tonnum af makríl í þremur löndunum, hafa veiðiferðirnar verið stuttar hjá togaranum, t.d. kom togarinn með 218 tonn í land eftir aðeins fimm daga á veiðum.
Þessi pistill er skrifaður á stað sem hefur ekki beint mikla tengingu við Suðurnes, því ég er staddur í Heydal í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi, tók mér smá frí og skellti mér í sumarbústað þar í sveit. Frábært að vera hérna. Við Ísafjarðardjúpið sjálft eru þrír bæir Súðavík, Ísafjörður og Bolungarvík. Finna má tengingu Suðurnesja við alla þessa þrjá bæi varðandi sjávarútveg en ég fer ekki nánar í það núna en get þó nefnt að í Bolungarvík eru núna tveir bátar sem voru í útgerð frá Suðurnesjum í mörg ár. Fyrst er það bátur sem heitir Finnbjörn ÍS, sá bátur var gerður út frá Grindavík í yfir tuttugu ár og hét þá Farsæll GK. Þá var báturinn rauður en í dag er báturinn fallega gulur á litinn og búið að breyta aðeins skutnum á honum. Hinn báturinn sem er þarna heitir í dag Ásdís ÍS en þessi bátur var frá því hann var smíðaður fyrir um tuttugu árum síðan gerður út frá Keflavík og hét Örn KE. Reyndar þó það væri heimahöfn bátsins þá réri báturinn alltaf frá Sandgerði og var orðin Örn GK undir það síðasta áður en báturinn var seldur til Bolungarvíkur.
Það er þó ekki þannig að hérna í Ísafjarðardjúpi séu bara bátar sem hafa verið keyptir frá Suðurnesjum, því að útgerðarfélagið Blikaberg ehf sem er í eigu Sigurðar og Gylfa Sigurðssonar fótboltamanns, hafa keypt bát sem var gerður út frá Bolungarvík. Báturinn Arney BA hefur nefnilega verið keyptur til Sandgerðis og heitir þar í dag Guðrún GK. Búið er að ráða skipstjóra á bátinn og kemur hann frá Ólafsvík og áhöfn bátsins er að nokkru leyti frá Ólafsvík og úr Reykjavík. Þessi bátur er 15 tonna plastbátur og var áður gerður út frá Sandgerði og hét þá Pálína Ágústdóttir GK , þessi bátur var smíðaður árið 2004 og hét þá fyrst Dúddi Gísla GK.