Afhentu bæjarstjóra áskorun
– Tónlistarskólakennarar í verkfalli mættu á bæjarskrifstofuna án hljóðfæra.
Kennarar við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og félagar í Félagi tónlistarskólakennara (FT), harma þá stöðu sem upp er komin hjá félagi sínu í áskorun sem kennararnir afhentu Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra í Reykjanesbæ í morgun. Áskorunin er til bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Hópur kennara við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar mætti á bæjarskrifstofuna við Tjarnargötu í morgun - án hljóðfæra.
„Grípa þurfti til þess örþrifaráðs að beita verkfallsvopninu, en verkfall hófst þann 22. október sl. Það þýðir að flestir nemendur skólans verða af kennslu meðan á verkfalli stendur.
Samningaviðræður milli FT og samninganefndar sveitarfélaga hafa nú staðið yfir í 10 mánuði án árangurs. Eitt af meginmarkmiðum Sambands íslenskra sveitarfélaga er jafnrétti í launasetningu, að tryggt sé að sambærileg og jafnverðmæt störf séu launuð með sama hætti óháð kynferði, búsetu og stéttarfélagsaðild. Í því samhengi minnum við á að FT er eitt aðildarfélaga Kennarasambands Íslands, við erum 5% félagsmanna og þeir einu sem ekki hefur verið samið við.
Við, félagar í FT, sáum okkur því miður knúin til að beita verkfallsvopninu en gerum okkur um leið grein fyrir áhrifunum sem það örþrifaráð hefur á nemendur okkar. Við höfum miklar áhyggjur af að brottfall verði úr nemendahópnum ef þeir fara á mis við það stöðuga aðhald og leiðsögn sem eingöngu sérfræðingur í listkennslu getur veitt. Einnig eru ófyrirséð áhrifin sem langt verkfall hefur á áform lengst komnu nemendur skólans um próf og útskrift næsta vor. Þá má velta fyrir sér hvaða afleiðingar hugsanlegt brottfall nemenda hefur á kennarahópinn, skólann okkar og það starf sem hér fer fram.
Við biðlum til Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að hvetja samninganefnd sveitarfélaga til að semja við FT á þeim nótum sem þegar hefur verið gert við öll önnur aðildarfélög Kennarasambandsins svo yfirstandandi verkfall dragist ekki á langinn,“ segir í áskoruninni sem allir kennarar við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem eru í Félagi tónlistarskólakennara skrifuðu undir.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar veitti áskoruninni móttöku með þeim orðum að enginn annar bæjarstjóri á Íslandi hefði meiri samúð með kröfum tónlistarskólakennara en hann. Kjartan Már er fyrrum skólastjóri Tónlistarskóla Keflavíkur sem síðar varð Tónlistarskóli Reykjanesbæjar með sameiningu við Tónlistarskóla Njarðvíkur.
Tónlistarskólakennarar mættu á skirfstofu bæjarstjóra Reykjanesbæjar í morgun og afhentu þar áskorun til bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.