Afhendingaröryggið skiptir mestu máli
- bæjarstjórinn í Vogum skrifar um dóm Hæstaréttar um Suðurnesjalínu 2
„Það er vandséð að sveitarstjórnir með sitt skipulagsvald leggi mat á það hvort umhverfismat sé nægjanlega vel unnið eða ekki, sveitarfélagið taldi sig því ekki eiga neinn annan kost en að gefa út leyfið á sínum tíma þar sem öll skilyrðin voru uppfyllt. Næstu skref þessa máls er að Landsnet láti framkvæma nýtt umhverfismat, þar sem fyrirtækinu er samkvæmt dómnum gert að láta skoða betur aðra valkosti en loftlínu, þ.e. jarðstreng,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum í pistli í vikulegu fréttabréfi í Vogum, þar sem hann fjallar um dóm Hæstaréttar vegna framkvæmdaleyfis til Landsnets er varða lagningu Suðurnesjalínu 2.
Í síðustu viku féll dómur í Hæstarétti, þar sem útgefið framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins til Landsnets hf. vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 var fellt úr gildi. Þar með eru áform Landsnets um lagningu línunnar úr sögunni, í bili a.m.k. Það þýðir að rafmagnsflutningar til Suðurnesja munu enn um sinn fara um þá einu línu sem fyrir er, Suðurnesjalínu 1.
Áformað var að leggja Suðurnesjalínu 2 að mestu samsíða eldri línunni, en vegna meiri flutningsgetu var þó gert ráð fyrir að möstrin yrðu hærri og þar af leiðandi meiri sjónmengun.
„Eðli málsins samkvæmt fer stór hluti línunnar í gegnum lögsögu Sveitarfélagsins Voga, og því þarf sveitarfélagið að gefa út framkvæmdaleyfið, lögum samkvæmt.
Þegar umsóknin lá fyrir voru öll skilyrði til útgáfu leyfisins uppfyllt, þ.e. fyrir lá umhverfismat, eignarhald á landinu (að undangengnu eignarnámi í sumum tilvikum), sem og lá staðfesting Skipulagsstofnunar fyrir. Dómur Hæstaréttar kveður hins vegar á um að umhverfismatið hafið verið ófullnægjandi,“ segir Ásgeir jafnframt.
Landsnet hefur fram til þessa talið kostnað við jarðstreng það mikið hærri en við loftlínu að ekki sé verjandi að ráðast í slíka framkvæmd. Í umræðunni um lagningu jarðstrengs hafa einnig komið fram þau sjónarmið að mikið rask fylgi lagningu jarðstrengs í hraun, með óafturkræfum áhrifum á ásýnd landsins. Hvað varðar loftlínu sé hins vegar sjónmengun, en minna um óafturkræf áhrif.
„Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir afhendingaröryggið mestu máli, og því brýnt að finna lausn sem allir geta þokkalega vel við unað,“ skrifar Ásgeir bæjarstjóri í Vogum.