Afgreiðsla stefnubirtinga færist til sýslumannsins í Keflavík
Innanríkisráðuneytið hefur falið sýslumanninum í Keflavík að sjá um afgreiðslu stefnubirtinga samkvæmt Haag-samningum um birtingar á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum frá og með 1. febrúar 2011.
Innanríkisráðuneytið hefur falið sýslumanninum í Keflavík að sjá um afgreiðslu stefnubirtinga samkvæmt Haag-samningum um birtingar á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum frá og með 1. febrúar 2011. Sýslumanninum hefur einnig verið falið að sjá um stefnubirtingar á grundvelli Norðurlandasamnings um gagnkvæma dómsmálaaðstoð frá 26. maí 1975.
Þessi breyting er gerð í framhaldi af fullgildingu íslenskra stjórnvalda á Haag-samningi um birtingu á stefnum o.fl. og Haag-samningi um öflun sönnunargagna sem tóku gildi á Íslandi 1. júlí 2010. Utanríkisráðuneytið, sem hafði milligöngu um slíkar birtingar þar til samningurinn var fullgiltur, hefur áfram milligöngu um stefnubirtingar í þeim ríkjum sem ekki eru aðilar að þessum samningi. Yfirlit yfir aðildarríki Haag-samningsins má sjá hér.
Sýslumaðurinn í Keflavík er til húsa við Vatnsnesveg 33, 230 Keflavík. Umsjón með birtingunum hefur Inga Lóa Steinarsdóttir, sími: 420-2433, netfang: [email protected].
- Sérstök athygli er vakin á því að þegar óskað er eftir milligöngu um birtingar þarf nú að útfylla þar til gerð eyðublöð.
- Nánari upplýsingar varðandi samninginn má finna á eftirfarandi heimasíðu: http://www.hcch.net