Afbrotum fækkar á Suðurnesjum
Ríkislögreglustjóri hefur nú birt staðfestar afbrotatölur fyrir árið 2010. Í umdæmi lögreglustjórans á Suðurnesjum fækkaði bæði hegningar- og sérrefsilagabrotum á milli áranna 2009 og 2010 á hverja 10.000 íbúa. Útlit er fyrir að sama þróun verði milli áranna 2010 og 2011 samkvæmt bráðabirgða tölum. Umferðarlagabrot standa nánast í stað milli áranna 2009 og 2010 en þeim fækkaði um tíu á hverja 10.000 íbúa.
Fíkniefnabrotum fjölgaði lítilega milli áranna 2009 og 2010 en nokkur hluti þeirra á sér stað í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Ofbeldisbrotum fækkaði á hverja 10.000 íbúa í umdæminu milli áranna 2009 og 2010 og hefur slík þróun átt sér stað allt frá árinu 2008.
Auðgunarbrotum fækkaði einnig á hverja 10.000 íbúa milli áranna 2009 og 2010 en fjölgun hafði orðið á milli áranna á undan. Undir auðgunarbrot falla innbrot og aðrir þjófnaðir og vill lögreglan koma því á framfæri að þrátt fyrir að dregið hafi úr auðgunarbrotum er brýnt að fólk tryggi það að óviðkomandi hafi ekki greiðan aðgang að eigum þess. Einnig er mikilvægt að tilkynna til lögreglu um grunsamlegar mannaferðir bæði í íbúða- og iðnaðarhverfum.