Afar brýnt er að fjölga stöðugildum
-Hjá Byggðasafni Reykjanesbæjar
Afar brýnt er að fjölga stöðugildum hjá Byggðasafni Reykjanesbæjar, ekki síst til að sinna viðamiklu ljósmyndasafni. Þetta kemur fram í skýrslu sem var kynnt menningarráði Reykjanesbæjar á síðasta fundi ráðsins. Ljósmyndasafn byggðasafnsins telur vel yfir 200.000 ljósmyndir.
Starfsemi Byggðasafns Reykjanesbæjar litaðist nokkuð af því á síðasta ári að safnstjóri til margra ára lét af störfum og nýr tók við 1. apríl. Á árinu fagnaði safnið 40 ára starfsafmæli og voru opnaðar þrjár nýjar sýningar, sumarsýning og afmælissýning safnsins í Gryfjunni og sérsýning um barnavagna í Stofunni, sem vakti mikla athygli.
Unnið var markvisst áfram að því að ljósmynda muni og er nú búið að mynda ríflega 70% safnkostsins. Þá hélt safnið utan um fornleifauppgröft á Keflavíkurtúni og hafin var vinna við skráningu húsa og mannvirkja á gamla Patterson-flugvelli. Undirbúningur var unninn að nýrri ljósmyndasýningu í tengslum við afmæli safnsins.