Áfall fyrir hótelin á Suðurnesjum - segir Steinþór Jónsson á Hótel Keflavík
Steinþór Jónsson, hótelstjóri Hótels Keflavíkur segir það mikið áfall að varnaræfingunni Norðurvíkingi hafi verið aflýst, bæði fyrir hótelin á Suðurnesjum og svæðið í heild. Von var á eittþúsund þátttakendum og búið að bóka hátt í þúsund herbergi á svæðinu og nágrenni. Jón B. Guðnason, framkvæmastjóri Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli sagði það í samtali við Víkurfréttir í síðustu viku þegar rætt var við hann um loftrýmisgæslu Nató.
Steinþór segir í samtali við mbl.is að 30 til 40 prósent af rými Hótels Keflavíkur hafði verið bókað undir æfinguna og undirbúningur verið í gangi síðan í október. „Það er mikil vinna í kringum þetta þótt þetta sé á endanum bara bókun,“ segir hann og telur að um 600 herbergi í heild sinni hafi verið bókuð í Reykjanesbæ og víðar vegna æfingarinnar.
„Þetta er gríðarlegt áfall fyrir svæðið í heildina. Það var búið að taka frá herbergi í tvær vikur og afbókunin kemur jafnt yfir alla. Sumir eru algjörlega búnir að setja allt undir æfinguna. Við erum með fasta samninga og gátum ekki meira [þ.e. leigt út fleiri herbergi] en þetta er líka áfall fyrir okkur,“ greinir Steinþór frá á mbl.is