Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 8. nóvember 2001 kl. 10:07

Af hverju vill fólk ekki búa á Suðurnesjum ?

Sveitarstjórnarmenn telja margir hlutverk sitt vera að skila frá sér stærra sveitarfélagi en þeir tóku við. Fólk sem á heima í lítilli notalegri sveit vaknar allt í einu við það að búið er að skipuleggja stórt iðnaðarhverfi á svæði sem hingað til hefur verið einn af kostum þess að búa í litla sveitarfélaginu. Þetta opna notalega svæði verður nú að andstæðu sinni með hávaða, hættu og sóðaskap. Er svo mikil þörf fyrir "flugtengt" iðnaðarsvæði í Reykjanesbæ að nauðsynlegt er að fórna svæði sem lengi hefur verið notað til útisvistar? Þegar hefur verið skipulagt flugtengt iðnaðarhverfi við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og varla mikil þörf á öðru svæði undir svona starfsemi.
Stærstur hluti tekna sveitarfélaga kemur frá útsvari einstaklinga. Sáralitlar tekjur stafa beint frá fyrirtækjum, en auðvitað væru engar útsvarstekjur að hafa ef engin væri atvinnan. Það er því eftirsóknarvert fyrir sveitarfélög að fá til sín fólk með háar uppgefnar tekjur.
Víða á Suðurnesjum starfar fólk sem á heima á höfuðborgarsvæðinu og er það hið besta mál. Í mörgum tilvikum er um að ræða hátekjufólk sem akkur væri í að fá til að flytjast hngað. Ég nefni sem dæmi lækna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, flugvirkja hjá Flugleiðum, lögfræðinga hjá sýslumanni, lögmenn sem reka lögmannsstofur á Suðurnesjum, flugumferðarstjóra á Keflavíkurflugvelli, yfirmenn hjá verktökum og hernum á Keflavíkurflugvelli, flugstjóra og flugliða, kennara hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og þú þekkir eflaust fleiri dæmi.
Hvað höfum við að bjóða þessu fólki og hvers vegna vill það ekki flytja hingað? Einn bæjarstjórnarmaður taldi ókost við svæðið vera þann að Suðurnes væri ljótt og hallærislegt nafn og réttast væri að skipta í eitthvað fallegra. Mér finnst það ekkert hallærislegra en Arnarnes eða Seltjarnarnes og sætti mig alveg við að vera áfram Suðurnesjamaður. En hvað höfum við að bjóða fólki hér í sveitarfélaginu Reykjanesbæ?
Skóla? Hér er búið að lyfta grettistaki í skólamálum og aðstaða er öll að verða hin besta. Skólafólk kemur hvaðanæva af landinu til að skoða aðstöðuna. Kennarar eru einnig almennt vel menntaðir og hægt er að fá góða menntun ef vilji, geta og hvatning í foreldrahúsum er fyrir hendi.
Veður? Veður er mjög milt á Suðurnesjum, en vindasamt. Veðurathugun á Keflavíkurflugvelli gefur þó ekki rétta mynd af veðrinu í Keflavík og Njarðvík. Mælingar fara fram á hábungunni á Keflavíkurflugvelli, við Garðskagavita og Reykjanesvita þar sem hvergi nýtur skjóls. Ekki myndu Reykvíkingar sætta sig við að veðurathuganir á Seltjarnarnesi og í Breiðholti væri réttur mælikvarði fyrir veður á höfuðborgarsvæðinu. Á þessu ári voru 11 dagar í Reykjavík þar sem hiti fór yfir 15°C, en 8 dagar á Keflavíkurflugvelli. Hér bráðvantar því veðurstöð á skjólsælum stað í bæjarfélaginu.
Atvinna? Hér er næg atvinna á svæðinu og atvinna fyrir mun fleiri heldur en hér búa.
Íþróttaaðstaða? Aðstaðan er yfirleitt til fyrimyndar, en þó vantar einn góðan hól fyrir vetraríþróttir. Heiðargarðsfell annar ekki lengur fjöldanum og er heldur í lægra lagi.
Skipulag bæjarins? Er þetta aðlaðandi bær? Hér er ljótum iðnaðarsvæðum raðað hringinn í kringum sveitarfélagið og nú á að fæla þá í burtu sem voru svo vitlausir að kaupa eða byggja húsnæði við opið svæði ofan Keflavíkur. Ég vil því leggja til við það ágæta fólk sem leggur fram tíma sinn og hugvit til sveitarstjórnarmála að það setji sér það markmið í skipulagsmálum að gera bæinn eftirsóknarverðan fyrir fólk.
Skila þarf inn mótmælum vegna Borgarhverfis fyrir 9. nóvember nk. eða með því að senda mótmæli á netfang byggingafulltrúa [email protected].

Ásgeir Eiríksson,
Heimavöllum 13, Keflavík.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024