Ævintýrasiglingar um norðurslóðir með viðkomu í Keflavík
Norðurslóðaskipið Polar Pioneer hafði viðkomu í Keflavíkurhöfn í gær en skipið er í ævintýraför um norðurslóðir. Ferðalagið hófst þann 28. júlí sl. og stendur til 10. ágúst. Siglt er um norðurslóðir með viðkomu á Íslandi, Grænlandi, Svalbarða og Noregi.
Skipið er sérstaklega styrkt til að sigla í ís en fyrir um áratug síðan var Polar Pioneer innréttaður til farþegaflutninga og getur flutt 56 farþega.
Farþegarnir sem eru um borð núna eru flestir ellilífeyrisþegar í leit að ævintýrum á norðurslóðum.
Það er heldur ekki ókeypis að fara í siglingu með skipinu því ferðalagið í 14 daga kostar frá tæpri milljón og allt að sautjánhundruð þúsund krónum, allt eftir því í hvernig klefa er gist. Þá er ekki meðtalinn ferðakostnaður til og frá skipi, sem geta verið flugferðir heimshorna á milli.
Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson