Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Ætlum að vera tilbúin þegar flugið fer aftur í gang
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 23. október 2020 kl. 10:18

Ætlum að vera tilbúin þegar flugið fer aftur í gang

segir Pálmi Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar

„Við erum heppin að fá svona mann til að hjálpa okkur með þetta. Mér lýst vel á það sem Max er að setja upp fyrir okkur og svo erum við einnig með innlenda aðila í skipulagsvinnunni,“ segir Pálmi Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, en það var stofnað í kjölfar brotthvarfs Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli árið 2006.

Dr. Max Hirsh, framkvæmdastjóri Airport City Academy og sérfræðingur á sviði byggðaþróunar við flugvelli starfar nú fyrir Kadeco að framtíðarskipulagi umhverfis við Keflavíkurflugvöll. Hann segir (í viðtali við VF) að möguleikarnir fyrir framtíðar uppbyggingu við Keflavíkurflugvöll séu miklar en horfa þurfi til fleiri þátta en bara ferðaþjónustunnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Nú er verkefnið að skipuleggja nærumhverfi flugvallarins sem liggur yfir sveitarfélagamörk og inn fyrir flugvallarsvæðið, auka virði þess og stuðla að uppbyggingu í takti við samfélagið til langs tíma litið. Það er búið að selja allar eignir á Ásbrúarsvæðinu og laða að mörg fyrirtæki. Við ætlum núna að stilla upp framtíðarsýn fyrir svæðið til áratuga. Við bíðum eftir að flugið fari aftur af stað, við þurfum að teikna umhverfið inn í það. Max og aðrir ráðgjafar vinna nú að undirbúningi fyrir hönnunarsamkeppnina en svo fáum við líka til okkar innlenda og erlenda sérfræðinga til þess að koma með tillögur að þessu skipulagi. Það ætti að vera tilbúið á næsta ári. Í framhaldinu verður hlutverk Kadeco að vera vettvangur í samtali þessara hagsmunaaðila og sá aðili sem nýir viðskiptaaðilar geta leitað til.“

Ríkið er að sögn Randvers að leggja mikla fjármuni í þetta framtíðarverkefni með því að halda starfsemi Kadeco gangandi og möguleikarnir sem svæðið hefur eru miklir. Staðsetningin milli Evrópu og Ameríku, nálægðin við höfuðborgarsvæðið, sveitarfélögin við völlinn og kostir íslensks samfélags eru ótvíræðir. Græn orka, sveigjanleiki, aðlögunar- og samstarfshæfni séu sömuleiðis þættir sem gegna æ stærra hlutverki í samskiptum og viðskiptum þjóða.

„Það er margt spennandi sem Max er að leggja til, t.d. cargo-drónar í vöruflutningum. Það er magnað dæmi. Hann telur mikilvægt að skilgreina ýmsa þætti betur eins og til dæmis hvar við sjáum fyrir okkur hótel og halda betur utan um starfsemi bílaleiga, flugfrakt og fleira. Hann kemur inn með nýja vinkla, marga mjög áhugaverða. Þetta verður erfitt á næstu árum að koma öllu í gang aftur en ég er mjög bjartsýnn og við ætlum að vera tilbúin með okkar framtíðarsýn þegar hjólin fara að snúast á nýjan leik,“ segir Pálmi Randversson.

Landsvæðið sem þróa á til framtíðar er grænmerkt á myndinni. Á neðri myndinni eru Pálmi Freyr, Dr. Max og Páll Ketilsson á skrifstofu Kadeco.