Ætlum að standa við gefin kosningaloforð eins og á síðasta kjörtímabili
- Hjálmar Hallgrímsson oddviti D-lista Sjálfstæðisflokksins í Grindavík
Kosið er til bæjarstjórnar í Grindavík á morgun, laugardaginn 26. maí. Víkurfréttir lögðu tvær spurningar fyrir oddvita allra framboðslista í Grindavík.
Hver eru stærstu kosningamálin í þínu sveitarfélagi fyrir þessar kosningar?
Daggæslumál.
Leysa þarf vanda þeirra foreldra sem þurfa daggæslu fyrir börn sín en fá ekki. Grindavíkurbær festi nýlega kaup á húsnæði á besta stað í bænum til þess að geta sinnt þessari þjónustu. Hluti af vandamálinu er einnig að ekki fæst fólk til þess að sinna daggæslu í sveitarfélaginu eins og víða annarsstaðar. Í leikskólamálum viljum við horfa til framtíðar og byggja fyrsta áfanga nýs leikskóla í Hópshverfi. Þrýsta þarf á stjórnvöld til þess að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla/daggæslu með því að lengja fæðingarorlof úr 9 mánuði í 12 mánuði.
Grindavíkurvegur.
Halda þarf áfram að þrýsta á ríkið að klára 2+1 breytingar á Grindavíkurvegi. Í forgangi þarf að vera vegarkaflinn á milli Bláa-lónsins og Reykjanesbrautar en þar er mjög brýnt að aðskilja akstursleiðir. 500 milljónir hafa fengist í verkefnið en miðað við kostnaðaráætlanir þarf talsvert meira fé til svo að vegurinn verði öruggari vegfarendum.
Hver eru helstu málefni ykkar framboðs, að þessu sinni?
Félagsaðstaða fyrir eldri borgara á svæðinu við Víðihlíð.
Við viljum reisa 300 til 400 fermetra félagsaðstöðu fyrir eldri borgara í Grindavík. Sú aðstaða verði byggð austan við Víðhlíð. Að Grindavíkurbær auglýsi eftir áhugasömum verktökum um að reisa 3 til 4 fjölbýlishús sem tengjast hinni nýju félagsaðstöðu. Þær íbúðir eru hugsaðar til sölu á frjálsum markaði en Grindavíkurbær kostar félagsaðstöðuna.
Húsnæðisáætlun og fl.
Við viljum leita eftir samstarfsaðilum við að byggja leiguhúsnæði í Grindavík án hagnaðarsjónarmiða. Við viljum fá ljósleiðara í öll hús og tryggja nægt framboð lóða fyrir íbúðir og þá sérstaklega fyrir fyrstu kaupendur.
Þetta ásamt málefnum fatlaðra, heilsugæslumál , tekin skýr stefna í umhverfis- og ferðaþjónustumálum með ráðningu ferðamálafulltrúa og að Grindavík verði áfram leiðandi sem íþróttabær o.s.fr.