Ætlar þvert yfir Noreg og Svíþjóð á 30 dögum
Hinn 43 ára gamli Suðurnesjamaður, Vignir Arnarson, hyggst nú í sumar ganga þvert yfir Noreg og Svíþjóð á einum mánuði og einungis lifa á því sem náttúran gefur af sér á leiðinni. Tilgangur ferðarinnar er að safna áheitum fyrir UNG BLIND sem er deild innan Blindrafélagsins fyrir blind og sjónskert börn og unglinga. Dóttir hans, Jenný Guðbjörg, sem búsett er í Reykjanesbæ, greindist með ólæknandi augnsjúkdóm fyrir tveimur árum og síðan þá hefur hún notið einstakrar hjálpar frá Blindrafélaginu og vill Vignir styrkja þá mikilvægu starfsemi sem þar fer fram.
Vignir, sem búsettur er í Noregi, hóf að undirbúa sig fyrir ferðina síðasta sumar og hefur hann síðan þá gengið fimm til sjö daga vikunnar, 4 til 22 km í senn. Hann stefnir að því að hefja gönguna á Bogsnesi við Tysfjord í Noregi 20. júlí og ganga þaðan til Pitea á austurströnd Svíþjóðar, samtals um 500km í loftlínu. Nokkrir hafa gengið þessa leið áður en enginn hefur farið af stað án matar og lifað eingöngu á því sem náttúran gefur af sér. Með því vill Vignir, auk þess að safna áheitum fyrir UNG BLIND, sýna hversu þægilegan og einfaldan dag við, sem eigum að teljast heilbrigð, lifum.
Á vefnum vignirpatur.net má finna allar nánari upplýsingar um fyrirætlanir Vignis en þar mun hann halda úti dagbók á meðan á ferð hans um óbyggðirnar stendur. Hann heldur einnig úti Facebook síðunni „Þvert yfir Noreg og Svíþjóð í 30d. og lifa aðeins á því sem náttúran gefur.“
Reikningsnúmer: 115-26-47015
Kennitala: 470169-2149
Reikningseigandi: Blindrafélagið