Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ætlar að safna fyrir 15 sjónvörpum á allar stofur D-deildar
Föstudagur 17. september 2010 kl. 09:52

Ætlar að safna fyrir 15 sjónvörpum á allar stofur D-deildar

Eins og við greindum frá fyrr í sumar þá safnaði Þorbjörg Elín Fríðhólm Friðriksdóttir fyrir ytri öndunarvél og ýmsum öðrum búnaði að andvirði um 2,1 milljón króna fyrir utan virðisaukaskatt. Þorbjörg er sjúklingur með langvinna lungnaþembu. Hún setti sér það markmið að safna fyrir ytri öndunarvél til þess að færa Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þorbjörg hefur þurft að styðjast mikið við ytri öndunarvél í baráttu sinni við sjúkdóminn. Aðeins ein slík vél var til á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en stofnunin þarf á tveimur til þremur að halda til að koma til móts við sjúklinga á svæðinu. Þetta markmið Þorbjargar hefur nú orðið að veruleika og er allur búnaðurinn sem safnað var fyrir kominn á HSS. Þorbjörg sagði í samtali við Víkurfréttir að það séu fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki og félög sem hafa lagt hönd á plóg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þorbjörg er alls ekki hætt að safna fyrir skjólstæðinga HSS því nú í vikunni tilkynnti hún að nú yrði ráðist í nýtt verkefni sem eflaust verði stærra en það síðasta. Ætlunin sé að safna fyrir nýjum sjónvarpsflatskjám inn á allar stofur D-deildarinnar, fimmtán samtals.

Sjónvörpin þurfa einnig að vera í stærra lagi og með veggfestingum þannig að skjólstæðingar sem liggja á D-deildinni eigi auðvelt með að sjá bæði mynd og texta. Ætla má að sjónvörpin 15 með veggfestingum kosti vel á þriðju milljón króna.

Bryndís Sævarsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri, sagði í samtali við Víkurfréttir að þörf væri á að endurnýja sjónvarpskostinn. Hann væri í misjöfnu ástandi og það myndi bæta alla aðstöðu á stofunum að koma sjónvarpsflatskjám upp á vegg.

Margt smátt gerir eitt stórt og þeim sem vilja leggja söfnuninni lið er bent á reikningsnúmerið hér að neðan.

542-14-401515
kt. 061051-4579

Sem fyrr segir stendur fjölskylda Þorbjargar með henni að söfnuninni og hefur hún stofnað Facebook síðu vegna söfnunarinnar á slóðinni: www.face-book.com/event.php?eid=369307628311&ref=mf