Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ætlar að ganga Suðurkjördæmi enda á milli
Ásmundur og fyrstu 20 kílómetrarnir af göngunni um Suðurkjördæmi.
Þriðjudagur 2. janúar 2018 kl. 10:16

Ætlar að ganga Suðurkjördæmi enda á milli

Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, ætlar að ganga Suðurkjördæmi enda á milli á árinu. Gangan er um 650 kílómetrar og áætlar Ásmundur að það séu um 30 til 35 dagleiðir. Ásmundur hefur þegar gengið fyrstu 20 kílómetrana.
 
„Sú löngun mín að ganga Suðurkjördæmi enda í milli hefur blundað í mér nokkuð lengi. Ég hef markvisst undirbúið mig til þess að að geta látið drauminn rætast og tel mig tilbúinn í verkefnið. Ég verð að ganga leiðina í áföngum og mér reiknast til að geta gengið þessa rúmlega 650 km. í 30-35 dagleiðum. 
Þannig stóðu pílagrimarnir að göngum sínum. Þeir gættu þess að birgðin væri sem minnst að bera á göngunni í gegnum lífið og hver áfangi væri leið til góðs. Það verður lærdómur minn á göngunni að fara að ráðum pilagrímanna og hafa Orðið að leiðarljósi og minnka burðinn á lífsins göngu,“ segir Ásmundur í færslu á fésbókinni.
 
„Ég man það að Forest Gump hljóp þvert yfir Bandaríkin Norður-Ameriku í hálfri bíómynd. Ég ætti því að koma því fyrir á einu ári að láta drauminn rætast. Vonandi vilja einhverjir slást í samfylgd með mér ákveðnar gönguleiðum eða áfanga sem ég er að skipuleggja. Ég vildi því sýna sjálfum mér að ég sé að meina það sem ég segi og dreg ekki að hefjast handa frekar en áður. 
 
Ég gekk því fyrsta áfangann á nýjarsdagsmorgni, frá Hvolsvelli að Vegamótum við Landveg, 20 km. leið í 12 gráðu frosti, þegar ég lagði í’ann í birtingu.
 
Þá er það baráttan við vigtina sem tekin verður alvarlegri en síðustu 35 árin og ég ætla líka að hafa sigur yfir ískápnum og breyta ástarsambandi okkar í svona haturs-ástarsamband þar sem ég reyni að forðast ískápinn sem mest og 125 kílóin verði færri í árslok.
 
Ég vona að ég rísi undir þessum markmiðum og árið verði mér og okkur öllum sem setja okkur markmið, ár árangurs og ég verði betri maður með hverjum degi.
 
Nú er bara að standa sig.
 
Þeir sem vilja taka þátt hafið samband. Þetta verður bara gaman,“ segir Ásmundur Friðriksson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024