Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ætlar að ganga í 600 hús fyrir prófkjörið
Jóhann og Darri sonur hans afhenda íbúa í Innri Njarðvík kynningarblað um frambjóðandann.
Föstudagur 21. febrúar 2014 kl. 09:54

Ætlar að ganga í 600 hús fyrir prófkjörið

Fæ mikið af ábendingum en þarf að afþakka kaffið - segir Jóhann Sigurbergsson

„Ég er búinn með 200 heimili en stefni á að fara í sex hundruð. Þetta er mjög skemmtilegt og ég fæ mikið af ábendingum,“ segir Jóhann S. Sigurbergsson, frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ en hann fer ótroðnar slóðir í kynningu á sjálfum sér.

Fyrir prófkjörið fyrir fjórum árum síðan gerði Jóhann það sama en þá gekk eiginkona hans, Gunnhildur Vilbergsdóttir með honum og þegar yfir lauk höfðu þau bankað upp á í sexhundruð íbúðum. Nú er frúin hins vegar í útlöndum og þá fékk Jóhann 8 ára son sinn, Darra Berg, með sér í gönguna. Jóhann segir drenginn hafa staðið sig eins og hetju og einnig haft gaman af.

Margar ábendingar
„Okkur hefur verið mjög vel tekið og þetta er frábær leið til að sýna sig og sjá aðra.  Ég hef fengið fullt af ábendingum um göngustíga sem þarf að laga, götur sem þarf að fegra og hitt og þetta sem fólk  vill bæta í nærumhverfi sínu. Stærsta vandamálið er að standast freistinguna um að koma inn í kaffibolla þegar það er boðið því það þarf að halda áfram og heilsa sem flestum,“ segir frambjóðandinn en hann er búinn að sigta út heimili skráðra Sjálfstæðismanna. Búinn að prenta út kort af bæjarhlutum, merkir hús Sjálfstæðismanna og velur svo götur með háu hlutfalli flokksmanna í byrjun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þeir feðgar byrjuðu í Innri Njarðvík en eru komnir í Ytri Njarðvík. Það liggur leiðin til Keflavíkur. „Ásbrú er erfið því þar er allt í fjölbýli og það tekur lengri tíma að finna réttar hurðir og bjöllur. Annars geri ég engan greinarmun á hverfum eða fólki. Reyni bara að ná sem flestum á sem skemmstum tíma,“ sagði Jóhann að lokum en hann er varabæjarfulltrúi en reynir nú að komast ofar á listann í flokknum.