Æskilegt að ráðast í álver í Helguvík
Það er æskilegt að ráðist verði í álver í Helguvík, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í viðtali við RÚV. Hann vill endurskoða rammaáætlun og segir að megnið af athugasemdum sem bárust við gerð áætlunarinnar hafi verið ein og sama athugasemdin.
„Ég vil að vinnunni verði haldið áfram við Rammaáætlun þar sem stjórnvöld gripu inn í síðast og að stjórnvöld fylgi mati sérfræðinganna. Þetta eru sérfræðingar, ekki bara á sviði verkfræði heldur á sviði ýmissa náttúrufræða líka.“
Forsætisráðherra var spurður út í áform um álver í Helguvík. „Það er mjög æskilegt að þetta verkefni verði klárað vegna þess að það mun skipta sköpum fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi er mest á landinu og væri þar af leiðandi mjög mikilvæg innspýting á það svæði.“
Í framhaldinu væri hægt að ráðast í tugi raunhæfra verkefna. Vísaði hann þar til þess að Íslandsstofa haldi utan um lista með litlum, meðalstórum og stórum verkefnum.