Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Æfingagjöld fimleika í Keflavík með því lægsta á landinu
Miðvikudagur 21. október 2015 kl. 09:31

Æfingagjöld fimleika í Keflavík með því lægsta á landinu

Mánaðagjöld fyrir fimleikaæfingar 8 til 10 ára barna í Keflavík eru með því lægsta sem gerist á landinu, samkvæmt könnun verðlagseftirlits ASÍ. Tekið var saman hve mikið kostar að æfa fimleika fyrir þennan aldurshóp í um það bil fjórar klukkustundir á viku. Hjá Keflavík er mánaðagjaldið 9.444 krónur sem er 4% hækkun frá í fyrra. Gjaldið hjá Keflavík er það fjórða lægsta á landinu. Dýrast er að æfa hjá Gerplu þar sem mánaðagjaldið er 14.549 krónur en ódýrast er að æfa hjá Hamri í Hveragerði þar sem mánuðurinn kostar 6.222 krónur. Haustönn hjá Keflavík kostar 37.778 krónur. Til samanburðar kostar haustönn hjá Gerplu 58.197 krónur og 24.889 krónur hjá Hamri.

Tekinn var saman æfingakostnaður fram að jólum, 4 mánuðir. Ekki var tekið tillit til þess hvaða fimleika er verið að æfa, það er hvort það eru almennir, hóp- eða áhaldafimleikar. Um verðsamanburð er að ræða og sú þjónusta og dagskrá sem í boði er á námskeiðum félaganna var ekki metin. Ekki var tekið tillit til fjáraflana sem íþróttafélögin standa fyrir og eða styrkja frá sveitarfélögum. Hvorki æfingagallar né keppnisgjöld voru með í gjaldinu sem borið var saman.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024