Æðstu yfirmenn Varnarliðsins: Vildu starfslok strax og greiða uppsagnarfrestinn
Varnarliðið vildi bjóða þeim 90 starfsmönnum sem sagt var upp störfum á dögunum að hætta strax og að þeim yrði greidd laun út uppsagnartímann, allt að þremur mánuðum. Boð um þetta kom beint frá æðstu yfirmönnum Varnarliðsins, m.a. Aðmíráli og Kafteini. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Víkurfrétta afþakkaði starfsmannastjóri Varnarliðsins boðið og sagði að slíkt tíðkaðist ekki á Íslandi og væri ekki samkvæmt íslenskum venjum. Starfsmannastjórinn er ráðgjafi Varnarliðsins og var farið eftir hans tilmælum.
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta hefur nokkur fjöldi þeirra starfsmanna sem sagt var upp störfum útvegað sér læknisvottorð til að geta hætt störfum, en fengið laun greidd út uppsagnarfrestinn. Heimildarmenn blaðsins segja að mjög slæmt andrúmsloft sé meðal starfsmanna innan Varnarliðsins þar sem erfitt sé fyrir þá sem sagt var upp störfum að sinna vinnu sinni. „Margir þeirra sem sagt var upp störfum hanga í vinnunni og eru ekki til neins gagns. Þeir vilja komast burt,“ sagði heimildarmaður blaðsins
Kristján Gunnarsson formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis sagði í samtali við Víkurfréttir að hann hefði ekki heyrt um að æðstu yfirmenn Varnarliðsins hafi boðið að þeim sem sagt var upp hættu strax. Kristján sagðist hinsvegar hafa spurt starfsmannastjóra Varnarliðsins að því, í aðdraganda þess þegar 90 starfsmönnum var sagt upp, hvort starfsmennirnir fengju að hætta strax. „Svör starfsmannastjórans voru afdráttarlaus. Hann sagði að allir starfsmennirnir þyrftu að vinna út uppsagnarfrestinn,“ sagði Kristján.
VF-ljósmynd/JKK: Frá fundi starfsmannastjóra Varnarliðsins með fulltrúum VSFK.