Æddi út í bíl um miðja nótt með börnin
Valgerður Gísladóttir er 86 ára gömul kona í Grindavík sem man tímana tvenna en jarðskjálftarnir á undanförnum árum, eru alls ekkert einsdæmi og Gerður man þegar jarðskjálftahrina dundi yfir árið 1968. „Það gekk yfir jarðskjálftahrina og ég man vel hve hrædd ég var við þetta, það kom oft fyrir að ég æddi út í bíl um miðja nótt með börnin og keyrði um á meðan skjálftarnir gengu yfir. Það eru miklu meiri upplýsingar um þetta í dag en á þessum tíma vissum við svo lítið. Ég var mikið ein heima með börnin því Willard var á sjó og það var ekki til að gera hlutina þægilegri fyrir mig. Þegar ég upplifi þessa skjálfta núna rifjast alveg upp miður góðar minningar frá þessum tíma en ég er ekki svo hrædd við þetta í dag, ætli ég sé ekki orðin svona sjóuð,“ sagði Valgerður.