Aðventugarðurinn féll bæjarbúum vel
Aðventugarðurinn var opnaður í fyrsta skipti þann 5. desember síðastliðinn en meginmarkmið hans var að lífga upp á tilveruna og skapa skemmtilega og notalega stemmingu fyrir fjölskyldur í aðdraganda jóla. Mætingin í Aðventugarðinn var góð og þar var líflegt um að litast.
„Til þess að geta dregið lærdóm af þessari frumraun og til að hjálpa okkur með áframhaldandi þróun verkefnisins leituðum við til bæjarbúa og báðum þá um veita endurgjöf með því að svara stuttri viðhorfskönnun,“ segir á vef Reykjanesbæjar.
Niðurstaða viðhorfskönnunar á Aðventugarðinum gefur skýrt til kynna að bæjarbúar tóku garðinum fagnandi. Meðal þess sem fólk nefndi þegar það var spurt um það fyrsta sem kom upp í huga þess þegar það hugsaði um Aðventugarðinn var gleði, samvera, jólastemning, falleg lýsing, bæjarbragur, fjölskylduskemmtun, ævintýralegt, þakklæti og margt fleira.
96% þeirra sem svöruðu könnuninni voru ánægðir með tilkomu Aðventugarðsins og 97% töldu líklegt að þeir myndu heimsækja hann aftur.
Bæjarbúum fannst jólaljósin vera það skemmtilegasta við Aðventugarðinn auk þess sem það vakti hrifningu að kíkja í sölukofana, á eldstæðin og að heilsa upp á jólasveinana og Grýlu.
Þá bárust einnig góðar ábendingar um hvernig hægt er að gera Aðventugarðinn enn betri. Ábendingarnar voru fjölbreyttar en margir vildu sjá fleiri sölukofa og lengri opnunartíma á meðan aðrir vildu að skrúðgarðurinn yrði skreyttur enn meira.
Nánar má lesa um könnunina hér.