Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aðstoðar jólasveininn í aðdraganda jóla
Föstudagur 20. desember 2013 kl. 09:55

Aðstoðar jólasveininn í aðdraganda jóla

Ég var nýbúinn að lesa fréttir um hræðilegt ástand fjölmargra fjölskyldna hér á Suðurnesjum sem lifa við sára fátækt og mér varð hugsað til barnanna. Þeirra sem jólasveinarnir sneiða hjá þegar þeir dreifa gjöfum í skó á aðventunni. Þeirra sem horfa þögul í gaupnir sér meðan jafnaldrar þeirra ræða nýjustu jólamyndina í bíó. Barnanna sem geta ekki tekið þátt í frjálsu góðgætisnesti í skólanum eða splæst límmiðum og silfurpennum á jólakortin í skólanum“. Svona lýsir Styrmir Barkarson í Keflavík því þegar hann fékk litla hugmynd nú á aðventunni sem skyndilega varð eins og flóðgátt sem opnaðist. Í bjartsýniskasti og trú á náungakærleik skrifaði hann stöðuuppfærslu á Facebook og kastaði fram þeirri hugmynd að ef fólkið sem hana læsi legði til peninga gætum við í sameiningu búið til pakka með skógjöfum og létt undir með þeim sem verst hafa það.

„Ég opnaði bara flóðgátt og það er allt yndislega fólkið sem fylgdi á eftir sem hefur gert þetta að því sem þetta er í dag,“ segir Styrmir Barkarson í Reykjanesbæ sem fékk litla hugmynd og framkvæmdi hana með vinum sínum á Facebook.

Styrmir ákvað að setja af stað söfnun fyrir skógjöfum á Facebook og fékk strax ótrúleg viðbrögð. Hann gaf upp reikningsnúmer og þegar fóru að berast fjárframlög og fyrirtæki tóku sig til og gáfu gjafir. Á mánudag fór Styrmir með yfir 500 gjafir til Keflavíkurkirkju en Velferðarsjóður Suðurnesja mun sjá um að útdeila gjöfunum á rétta staði.

Verkefninu er alls ekki lokið og Styrmir ætlar að halda áfram fram að jólum og lengur ef svo ber undir. Á þriðjudagskvöld höfðu safnast vel yfir 300.000 krónur og fjöldi gjafa hafði einnig borist. Skógjafirnar hafa allar verið keyptar og næsta verkefni er að kaupa ýmsar aðrar jólagjafir fyrir börn og unglinga.

Styrmir segir að það vanti mikið jólagjafir fyrir unglinga og þá hallar verulega á stráka þegar kemur að gjöfum sem berast í svona safnanir.

„Það er sagt að lítil þúfa geti velt stóru hlassi og það hef ég upplifað svo um munar á síðustu dögum. Ein lítil Facebook stöðuuppfærsla hefur hrundið af stað atburðarás sem minnir okkur á allt það góða sem í okkur býr. Hjarta mitt er fullt af þakklæti og bjartsýni og ég vil ekki hætta. Ekki núna þegar ég sé hvað við getum gert saman. Ég ætla að halda áfram á þessari braut með það að markmiði að hlífa börnum þeirra sem sárast þjást og gera hvað ég get til að leyfa þeim að eiga þessar ljúfu litlu stundir sem ekkert barn ætti að fara á mis við. Eins og viðtökurnar hafa verið vil ég helst halda áfram svo lengi sem allt þetta yndislega fólk gerir mér það kleift. Þegar jólunum lýkur tekur ýmislegt annað við. Skorturinn varir allt árið þó jólin minni okkur illþyrmilega á hann. Það eiga t.d. ekki allir fyrir gjöfum til að taka með sér í bekkjarafmælin sem þeim er boðið í og svo fá ekki heldur allir afmælisgjafir. Og í upphafi skólaárs eru það pennaveskin og skemmtilegu strokleðrin sem eiga hug þeirra allan. Það er svo margt ef að er gáð,“ segir Styrmir Barkarson.

Söfnunarreikningurinn er 0542-14-403565 á kennitölu 281080-4909.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024