Aðstæður lífshættulegar mönnum geta skapast
Það er mat lögreglustjóra að ógn stafi af hraunrennsli og gasmengun í Grindavík og inn í Svartsengi við núverandi aðstæður. Þá er fylgst vel með hraunrennsli fyrir ofan Suðurstrandarveg sem ógnar ekki veginum enn sem komið er. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Þá hefur lögregla til rannsóknar atvik inn við Bláa Lónið þar sem starfsmaður þar þurfti að leita sér aðstoðar á sjúkrahúsi vegna gasmengunar. Vinnueftirlitið hefur það atvik jafnframt til skoðunar.
Við breytilega vindátt getur vart talist forsvaranlegt að halda úti starfsemi í Bláa Lóninu á meðan eldgos er enn í gangi og á það jafnframt við um aðra starfsemi inn á hættumatskorti Veðurstofu Íslands.
Lögreglustjóri biðlar til íbúa Grindavíkur og annara sem eiga hagsmuna að gæta inn á merktu hættusvæði að dvelja þar ekki. Þar geta skapast aðstæður sem geta verið lífshættulegar mönnum.
Hér er streymi Live from Iceland frá eldgosinu.
Þeir sem eiga erindi inn í Grindavík er bent á að athuga reglulega með loftgæði á svæðinu inn á vefsíðu Umhverfisstofnunar, á slóðinni: https://loftgaedi.is/
Aukin hætta vegna gasmengunar
Hættumat hefur verið uppfært og gildir það frá kl. 15 föstudaginn 22. mars til kl. 15 mánudaginn 25. mars haldist staðan óbreytt. Hætta af völdum gasmengunar er metin meiri á öllum svæðum m.v. síðastliðna daga. Það er vegna veðurspár næstu daga og hærri mældra gilda á flæði brennisteinsdíoxíð (SO2) frá gígunum og hraunbreiðunni nú en áður. Á svæðum 1 og 5 (norðvestan gosstöðvanna) er hætta vegna hraunflæðis minni en síðastliðna þrjá daga vegna stöðugleika hraunbreiðunnar norðan gosstöðvanna og núverandi hraunflæðis sem leitar einkum til suðurs. Hraunbreiðan er þó enn hættuleg sökum þess hve stutt er síðan hún myndaðist.
(Smellið á kortið til sjá það stærra)