Aðstæður í sprungunni mjög erfiðar og krefjandi
Manns, sem talið er að fallið hafi í sprungu við heimahús í Grindavík í morgun, er enn leitað. Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning kl. 10:18 í morgun um hugsanlegt vinnuslys, þar sem grunur leikur á að maður hafi fallið ofan í djúpa sprungu. Maðurinn hafði verið einn við vinnu við jarðvegsþjöppun eftir sprungufyllingu. Fjölmennt lið viðbragsaðila er á vettvangi og stendur leit enn yfir, segir í tilkynningu lögreglunnar nú síðdegis.
Aðstæður á staðnum eru mjög erfiðar og krefjandi. Sprungan sem maðurinn er talinn hafa fallið í er samkvæmt heimildum Víkurfrétta meira en 30 metra djúp. Aðgerð viðbragðsaðila er því bæði mikil og flókin.
Tugir viðbragðsaðila eru við vinnu á vettvangi. Þeir koma frá lögreglu, björgunarsveitum og slökkviliði. Sérsveitarmenn frá lögreglu og sérþjálfaðir björgunarsveitarmenn, sem eru vanir að vinna við erfiðar aðstæður, eru einnig á vettvangi.
Stórvirkar vinnuvélar eru notaðar á vettvangi en m.a. þurfti að rýmka op sprungunnar til að auðvelda störf viðbragðsaðila á vettvangi.