Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Aðlögunaráætlun Reykjanesbæjar samþykkt
Miðvikudagur 19. apríl 2017 kl. 09:13

Aðlögunaráætlun Reykjanesbæjar samþykkt

- Lögbundið skuldaviðmið næst fyrir árið 2022

Aðlögunaráætlun Reykjanesbæjar fyrir tímabilið 2017 til 2022 var tekin til annarrar umræðu og afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar í gær, þriðjudag, og var samþykkt af öllum bæjarfulltrúum. Aðlögunaráætlunin felur í sér hvernig koma á sveitarfélaginu undir 150 prósenta skuldaviðmið árið 2022. Skuldaviðmiðið var sett í lög um sveitarfélög árið 2012 og þýðir hugtakið að skuldir A og B-hluta sveitarfélaga nemi ekki hærra hlutfalli en 150 prósentum af reglubundnum tekjum sveitarfélags. Áætlað er að Reykjanesbær nái lögbundnu skuldaviðmiði fyrir árið 2022.

Í máli Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra, á fundinum í gær, kom fram að aðlögunaráætlunin hafi þegar verið kynnt kröfuhöfum, eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og öðrum sem hagsmuna eiga að gæta og hefur hún hlotið góðar viðtökur allra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Reykjanesbær var langt yfir 150% skuldaviðmiði þegar við tókum við árið 2014 og bærinn var í einni erfiðustu stöðu sveitarfélaga á landinu.  Skuldirnar voru að mestu leyti til komnar vegna ýmissa verkefna, fjárfestinga og skuldbindinga, ekki síst vegna leiguskuldbindinga Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. Erfiðasta verkefnið var í raun að semja við kröfuhafa en nú liggur fyrir óundirritað samkomulag sem við vonumst til að gengið verði frá innan skamms,“ sagði Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar, á fundinum í gær. Aðlögunaráætlunin gerir ráð fyrir að tekjur Reykjanesbæjar haldi áfram að vaxa með fjölgun íbúa, hærra atvinnustigi og auknum tekjum Reykjaneshafnar í kjölfar aukinnar skipaumferðar vegna uppbyggingar hafnsækninnar starfsemi í Helguvík. Þá er áætlað að lækka útsvar um næstu áramót, í 14,52 prósent, en það var hækkað árið 2015 vegna erfiðrar fjárhagsstöðu bæjarfélagsins.