Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Aðkoma ríkisins að Helguvík verði sambærileg og á öðrum iðnaðarsvæðum á landinu
  • Aðkoma ríkisins að Helguvík verði sambærileg og á öðrum iðnaðarsvæðum á landinu
Mánudagur 13. júní 2016 kl. 09:00

Aðkoma ríkisins að Helguvík verði sambærileg og á öðrum iðnaðarsvæðum á landinu

Hafnaryfirvöld Reykjaneshafnar áttu fund með þingmönnum og ráðherrum úr Suðurkjördæmi í síðustu viku þar sem starfsemi hafnarinnar og framtíðarhorfur voru kynntar fyrir þingmönnum. Fyrir liggur að ráðast þarf í frekari hafnarbætur í Helguvík og lengja viðlegukanta í höfninni til að hún ráði við að þjónusta m.a. þau kísilver sem eru að rísa í Helguvík.

Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, sagði í samtali við Víkurfréttir, að lengja þurfi viðlegukanta um 200 metra og að það þurfi að gerast á næstu 2 til 3 árum. Um sé að ræða framkvæmd sem kostar rúman milljarð króna.

Víkurfréttir leituðu viðbragða þingmanna Suðurkjördæmis og sendu skriflegar spurningar til þeirra. Svör bárust frá öllum þingmönnum kjördæmisins og þar af sameinuðust sex þingmenn um svör til blaðsins.

Áformaður fundur með stjórnvöldum og bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og þingmennirnir Silja Dögg Gunnarsdóttir Framsóknarflokki, Unnur Brá Konráðsdóttir Sjálfstæðisflokki, Haraldur Einarsson Framsóknarflokki og Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokki sendu sameiginlega svör við eftirfarandi spurningum:

- Hver er afstaða þín til þeirra uppbyggingar sem nú á sér stað í Helguvík?
„Við erum hlynnt þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað í Helguvík sem unnið hefur verið að af hálfu stjórnvalda og Reykjanesbæjar um margra ára skeið sem og framtíðaráformum um frekari uppbyggingu á iðnaðarsvæðinu þar. Þessi verkefni munu hafa jákvæð áhrif á Suðurnesin öll og mikilvæg efnahagsleg áhrif fyrir þjóðarbúið sömuleiðis.“

- Það hefur lengi verið talað um að ríkið komi að framkvæmdum við höfnina í Helguvík. Þar liggur fyrir að ráðast þarf í lengingu hafnargarða og aðra uppbyggingu innviða meðal annars vegna þeirra kísilvera sem nú rísa og eiga eftir að rísa á næstu 2 til 3 árum. Hver er afstaða þín til aðkomu ríkisins að hafnarframkvæmdum í Helguvík?

„Undanfarin ár hefur verið unnið að því af hálfu ríkisstjórnarinnar að efla atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi og nokkrir fjárfestingasamningar verið gerðir þar að lútandi, meðal annars við United Silicon hf. og Thorsil ehf. í Helguvík.

United Silicon er nú á lokametrum við byggingu 1. áfanga kísilvers – en ekki þarf að stækka hafnaraðstöðuna í Helguvík til að þjónusta þá starfsemi. Thorsil áformar að hefja byggingu 1. áfanga kísilversins fljótlega og gangi þau áform eftir verður nauðsynlegt að stækka höfnina samhliða.
Við styðjum þau áform og teljum eðlilegt að aðkoma ríkisins verði sambærileg og á öðrum iðnaðarsvæðum á landinu, meðal annars á Bakka og Reyðarfirði. Undirbúningur að slíku frumvarpi á vegum iðnaðarráðherra var vel á veg kominn þegar bæjaryfirvöld Reykjanesbæjar ákváðu að hverfa frá þeirri leið og sækja fjárframlög í gegnum hafnaráætlunarhluta Samgönguáætlunar.
Nú er unnið að Samgönguáætlun í þinginu og mikilvægt að tekið verði á málinu þar. Þá er ríkisstjórnin upplýst og vel meðvituð um stöðu mála.

Á næstunni er áformaður fundur með stjórnvöldum og bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ þar sem farið verður yfir stöðu málsins og næstu skref í því rædd.“

Verðmætasköpun í Helguvík samfélaginu til góðs

„Eftir langan aðdraganda og mikinn undirbúning er sú uppbygging komin í gang sem bæjarfulltrúar og bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur unnið að síðustu, að minnsta kosti 10 til 15 ár og íbúar borið miklar væntingar til. Lagt hefur verið í mikinn kostnað vegna uppbyggingar hafnarinnar og skipulags iðnaðarsvæðisins í Helguvík og nú hyllir undir að sá mikli kostnaður skili sér. Ekki aðeins í bæjarkassann heldur í hundruð vel launaðra starfa sem verða til í bæjarfélaginu og auka velmegun íbúanna. Ég gleðst yfir því að sú mikla verðmætasköpun sem er farin í gang í Helguvík verði samfélaginu til góðs og því mikil lyftistöng,“ segir Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki þegar hann er spurður um afstöðu til uppbyggingar í Helguvík.

- Hver er afstaða þín til aðkomu ríkisins að hafnarframkvæmdum í Helguvík?
„Stuðningur ríkisins við uppbygginguna þarf að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast og nú eru síðustu möguleikar að standa við þau loforð sem tvær síðustu ríkisstjórnir hafa gefið um uppbygginguna í Helguvík en ekkert orðið úr efndum. Brýnustu verkefnin sem þarf að ganga í á næstu tveimur árum eru stofn- og tengivegir vegna Stakksbrautar, Berghólabrautar og Hólmbergsbrautar en kostnaðurinn er áætlaður 700 milljónir króna. Vegna hafnarframkvæmda við Hafnarbakka þarf samtals um 480 milljónir króna og þarf að hefja hluta þeirrar uppbyggingar mjög fljótlega. Verðmætasköpunin sem byggir á innviðauppbyggingu í Helguvík skiptir milljarða tugum strax á næsta ári og hundruðum þegar allri uppbyggingu verður lokið. Stærsti hlutinn af þeirri verðmætasköpun mun lenda í vasa ríkissjóðs og því eru skyldur hans miklar við að koma þessum verkefnum í höfn svo Helguvík og íbúar á Suðurnesjum sitji við sama borð og aðrir landsmenn og sveitarfélög þegar kemur að innviðauppbyggingu stóriðju. Látum af því að kenna hvort öðru um og látum verkin og loforðin að tala. Þess vegna hef ég undirbúið breytingatillögu við Samgönguáætlun 2015-2018 þar sem tekið er á þeim framkvæmdum sem áður eru nefndar í svari mínu,“ segir Ásmundur.

Uppbygging í Helguvík mjög spennandi

„Mér finnst sú uppbygging í Helguvík sem kynnt var fyrir okkur þingmönnum í Stapanum í síðustu viku mjög spennandi og tel að ríkið eigi að koma að fjármögnun á innviðum svo sem hafnarframkvæmdum og annarri innviðauppbyggingu, rétt eins og annars staðar þar sem sambærileg iðnaðaðaruppbygging hefur átt sér stað eins og Húsavík vegna Bakka svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Páll Jóhann Pálsson þingmaður Framsóknarflokks í svari til Víkurfrétta.

Nauðsynlegt að ríkið komið að framkvæmdum

„Mér líst ekkert á það að í tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá íbúabyggð, leikskóla og grunnskóla rísi tvö heimsins stærstu kísilver og 360 þúsunda tonna álver. En góðu fréttirnar eru þær að ekki eru miklar líkur á því að það gerist. Þó er ljóst að annað kísilverið er að rísa og því er mikilvægt að innviðir hafnarinnar geti þjónustað iðnaðarsvæðið,“ segir Oddný G. Harðardóttir alþingismaður Samfylkingar í svari við spurningu um afstöðu til uppbyggingar sem er að eiga sér stað í Helguvík.

- Hver er afstaða þín til aðkomu ríkisins að hafnarframkvæmdum í Helguvík?
„Það er nauðsynlegt að ríkið komið að framkvæmdunum og ég hef flutt um það tillögur á Alþingi með stuðningi þeirra flokka sem nú eru þar í minnihluta. Í stöðunni eins og hún er núna þarf hins vegar að skýra afstöðu kröfuhafa Reykjanesbæjar og að ríkisstyrkurinn gangi til uppbyggingar en ekki upp í skuld. Þegar að búið er að lyfta öllum fyrirvörum af stórum verkefnum er mjög algengt að ríkið komi að innviðauppbyggingu og það er réttmæt krafa að það gerist líka hér á Suðurnesjum,“ segir Oddný.

Frekar mótfallinn þessari gegndarlausu stóriðjustefnu

„Mín afstaða til hennar er óbreytt en ég hef frá upphafi verið frekar mótfallinn þessari gegndarlausu stóriðjustefnu sem rekin hefur verið hér á landi alltof lengi. Það er mín skoðun að þetta Helguvíkurdæmi sé algert stjórnsýsluklúður frá upphafi til enda og afleiðingar þess sjáum við meðal annars í þeirri ömurlegu stöðu sem Reykjanesbær og íbúar hans eru staddir í nú um stundir. Það hefði hugsanlega verið hægt að sætta sig við þessa uppbyggingu á sínum tíma ef allir verkferlar hefðu verið réttir, tryggt fjármagn, tryggð nægjanleg raforka og eðlileg aðkoma ríkisins að þessu verkefni. Og síðast en ekki síst þá hefði átt að spyrja íbúa svæðisins um það hvort fara ætti í þennan leiðangur,“ segir Páll Valur Björnsson, alþingismaður Bjartrar framtíðar þegar hann er spurður um afstöðu til uppbyggingar í Helguvík.  

- Hver er afstaða þín til aðkomu ríkisins að hafnarframkvæmdum í Helguvík?
„Eins og kom fram í svari mínu hér að framan að ef rétt hefði hefði verið staðið að málum þá hefði aðkoma ríkisins verið eðlileg. Við höfum séð hvernig þetta hefur virkað í uppbyggingu samgöngumannvirkja á landinu á undanförnum árum. Nægir þar að nefna Bakka við Húsavík og svo þau jarðgöng sem farið hefur verið í að bora hér og þar um landið.

Það er ljóst að það vantar 1200 milljónir í þetta verkefni til þess að það gangi upp og ef skoðuð er Samgönguáætlun og Fjármálaáætlun ríkistjórnarinnar til næstu 5 ára þá er ekki gert ráð fyrir þessu fjármagni þar. Það hefur líka komið fram að ríkið muni ekki setja fjármagn í þetta fyrr en samningar hafa náðst við kröfuhafa Reykjanesbæjar og því er það mín ósk og eflaust allra annara að það gerist nú á næstunni,“ segir Páll Valur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024