Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aðgerðir til að tryggja örugga framtíð Grindvíkinga
Ljósmynd: Vilhelm Gunnarsson
Mánudagur 22. janúar 2024 kl. 13:51

Aðgerðir til að tryggja örugga framtíð Grindvíkinga

Ríkisstjórnin hefur í dag kynnt áform um aðgerðir sem miða að því að skapa forsendur fyrir öruggari framtíð fyrir Grindvíkinga og eyða þeirri óvissu sem hefur verið vegna fordæmalausra aðstæðna. Aðgerðirnar snúa að því að gera Grindvíkingum kleift að koma sér upp öruggu heimili, tryggja örugga afkomu og aðstoð við að bjarga verðmætum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Frá því að atburðarásin sem enn er í gangi í Grindavík hófst þann 10. nóvember sl. hefur ríkisstjórnin fylgst grannt með stöðu mála. Í ljósi umfangs verkefnisins og áhrifa þess á hagkerfið, hefur ríkisstjórnin fundað með fjölmörgum aðilum í aðdraganda ákvörðunar sinnar. Auk þess að funda með íbúum bæjarins og bæjarstjórn hefur ríkisstjórnin fundað með Veðurstofu Íslands, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, Seðlabanka Íslands, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun auk fjölda jarðvísindafólks og sérfræðinga innan og utan Stjórnarráðsins. Fyrr í dag funduðu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra með bæjarstjórn Grindavíkur um þá ákvörðun sem nú er greint frá. Þá funduðu þau einnig með forystufólki allra flokka á Alþingi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markmið aðgerðanna eru eftirfarandi:

Örugg heimili

Ríkið mun skapa forsendur fyrir Grindvíkinga til að koma sér upp öruggu heimili á eigin forsendum. Ríkið mun gefa Grindvíkingum kost á að leysa út þá fjármuni sem bundnir eru í íbúðarhúsnæði þeirra auk þess að grípa til aðgerða til að tryggja framboð á íbúðarhúsnæði fyrir Grindvíkinga.

  • Óvissu vegna íbúðarhúsnæðis eytt: Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er í Grindavík og þeirrar óvissu sem ríkir um búsetu í bænum á næstunni hefur ríkisstjórnin ákveðið að bjóða upp á að einstaklingar geti nýtt fjármuni sem nú eru bundnir í húsnæði þar til fjármögnunar nýrra heimila, óski þeir eftir því.
  • Framboð á húsnæði: Unnið verður markvisst að því að tryggja framboð á varanlegu húsnæði fyrir Grindvíkinga. Í því felst meðal annars að ríkið mun ráðast í uppbyggingu á húsnæði á tilteknum svæðum auk þess að skapa forsendur sem tryggja Grindvíkingum forgang að húsnæði. Einnig er unnið að því að þrengja skilyrði varðandi skammtímaútleigu íbúða.
  • Skammtíma húsnæði: Áfram verður unnið að því að tryggja Grindvíkingum húsnæði þar til þeir geta komið sér fyrir í varanlegu húsnæði. Bríet mun kaupa 50 íbúðir til viðbótar við þær 80 sem keyptar voru í desember og þær 70 sem unnið er að kaupum að þessa dagana. Jafnframt vinnur Bjarg íbúðafélag að því að kaupa 60 íbúðir fyrir Grindvíkinga í samræmi við samstarfsyfirlýsingu frá 24. nóvember. Í heild hefur ríkið þannig keypt 260 íbúðir frá upphafi tímabilsins.
  • Húsnæðislán hjá lífeyrissjóðum: Ríkið mun taka á sig greiðslu vaxta og verðbóta af húsnæðislánum í Grindavík hjá þeim sem kjósa að selja ekki húsnæði sitt til samræmis við aðgerðir bankanna.

Örugg afkoma

Ríkið mun halda áfram að tryggja Grindvíkingum örugga afkomu með húsnæðisstuðningi.

  • Framfærsla: Afkoma þeirra sem ekki geta sótt atvinnu í Grindavík vegna aðstæðna verður áfram tryggð með framlengingu á stuðningi við greiðslu launa frá ríkinu auk framlags í lífeyrissjóð. Þetta fyrirkomulag verður í gildi til loka júní og verður endurskoðað og framlengt eftir því sem þörf krefur.
  • Húsnæðisstuðningur: Sértækur húsnæðisstuðningur við Grindvíkinga verður uppfærður og framlengdur til loka júní. Stuðningurinn mun nú miða við fjölda heimilisfólks og verður allt að 90% af kostnaði við leigu í stað 75% áður til að ná betur utan um allan kostnað sem fellur til vegna leigu á húsnæði.

Örugg verðmæti

Frá því í nóvember hafa viðbragðsaðilar nýtt öll tiltæk ráð við að bjarga eins miklum verðmætum og hægt er frá skemmdum. Unnið verður áfram að því að Grindvíkingar geti fengið aðgengi og aðstoð við að bjarga verðmætum og innbúi frá heimilum sínum og koma í örugga geymslu.

  • Aðgengi: Áfram verður unnið með almannavörnum, bæjaryfirvöldum og viðbragðsaðilum að gera Grindvíkingum kleift að nálgast heimili sín til þess að sækja innbú og verðmæti þegar aðstæður leyfa.
  • Flutningar: Stjórnvöld eru að undirbúa samstarf við fyrirtæki sem sérhæfa sig í flutningum sem geta veitt aðstoð til þeirra Grindvíkinga sem ekki hafa tök á að annast slíkt sjálf við sækja verðmæti.
  • Geymslur: Unnið er að því að veita Grindvíkingum aðstoð við að fá aðgang að öruggu geymsluhúsnæði þar sem hægt er að geyma verðmæti og innbú á meðan þörf krefur.

Framkvæmd aðgerða

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar miðast við að útfærsla aðgerða og nauðsynleg lagafrumvörp muni liggja fyrir eigi síðar en snemma í febrúar að afloknu samráði við Grindvíkinga og aðra hagaðila. Áfram verður unnið náið með bæjarstjórn Grindavíkur að öllum þessum viðfangsefnum og einnig stutt við starfsemi sveitarfélagsins við þessar erfiðu aðstæður. Undirbúningur, greiningarvinna og samtöl við hagaðila er þegar hafin.

Sett verður á laggirnar samráðsnefnd með fulltrúum allra flokka á Alþingi undir forystu fjármála- og efnahagsráðherra þar sem farið verður yfir ólíkar leiðir og útfærslur til að ná þessum markmiðum.