Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aðgerðir til að bregðast við veirunni
Eldri borgarar í matsal á Nesvöllum eftir aðalfund FEBS í síðustu viku. Nú er sá salur lokaður. VF-myndir/hilmarbragi.
Fimmtudagur 12. mars 2020 kl. 11:29

Aðgerðir til að bregðast við veirunni

Sjálfsskömmtun á mat hætt þar sem hún hefur verið.

„Við þurfum að bregðast við eins og hægt er og gera nokkrar ráðstafanir hjá okkur sjálfum og eins hjá þeim aðilum sem við erum að þjónusta,“ sagði Magnús Þórisson, matreiðslumeistari og eigandi matstofunnar Réttarins í Keflavík, en meðal atriða er að loka salatbar á staðnum, einfalda alla afgreiðslu og loka fyrir sjálfsskömmtun.

„Við munum í öryggisskyni loka salatbar og þá verðum við með einfalda afgreiðslu á öllum mat. Okkar fólk á Réttinum mun alfarið sjá um skömmtun á diska. Sama gerist á nokkrum stærri vinnustöðum sem við höfum afgreitt mat til. Þar verður sjálfsskömmtun hætt og sömuleiðis salatbar lokað. Við þurfum að gæta eins mikils öryggis og hægt er og þetta er einn liður í því,“ sagði Magnús.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Margir brugðist við COVID-19

Margir vinnustaðir og stofnanir hafa brugðist við COVID-19 veirunni með ýmsum aðgerðum. Alls staðar þar sem sjálfsskömmtun hefur verið hefur nú verið tekin af, í bili alla vega. Á hjúkrunarheimili Hrafnistu og Nesvöllum hefur breyting verið gerð varðandi framreiðslu á mat og þá hefur hjúkrunarheimilinu verið lokað fyrir heimsóknir. Á Nesvöllum verður lokað í matsal og félagsstarf aldraðra fellur niður, þ.m.t. leikfimi, listasmiðja og aðrir viðburðir á vegum Félags eldri borgara á Suðurnesjum.

Boðið verður upp á heimsendingu matar fyrir þá sem þess þurfa. Reykjaneshöll er lokuð fyrir gönguhópa. Þátttakendum í Fjölþættri heilsueflingu 65+ Janusarhóparnir er bent á að fylgjast með tölvupóstum og tilkynningum á Facebook-síðum verkefnisins. Nánar er fjallað um takmörkun hjá Reykjanesbæ í frétt á síðu 2.

Magnús Þórisson við störf á Réttinum.