Aðeins tvær björgunarþyrlur í landinu - Landhelgisgæslan skilar TF-EIR
Landhelgisgæslan mun aðeins reka tvær björgunarþyrlur á næsta ári og verður minni þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-EIR, verða skilað samkvæmt heimildum Víkurfrétta úr Stjórnarráðinu. Landhelgisgæslan á þyrlu af gerðinni Aerospatiale Super Puma sem ber einkennisstafina TF-LÍF. Þá leigir Gæslan tvær þyrlur. Önnur þeirra, TF-GNA, er sömu tegundar og Líf, en hin, TF-EIR, er minni og af gerðinni Aerospatiale Dauphin II. Henni verður nú skilað.
TF-EIR kom til landsins í ársbyrjun 2007 og hefur því þjónað Landhelgisgæslunni í tæplega þrjú ár.
Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru notaðar jafnt til öryggis- og löggæslu sem og í leitar og björgunarflug. Farið er með reglubundnum hætti í eftirlitsflug á þyrlum en auk þess er æfingaflug nýtt til löggæsluverkefna. Löggæsluferðir þyrlnanna felast í almennu eftirliti með skipaumferð og fiskveiðum á grunnslóð.
Ekki hafa fengist upplýsingar um það hvort flugdeild Landhelgisgæslunnar flytji til Keflavíkurflugvallar þegar verkefni sem Varnarmálastofnun Íslands verða sameinuð öðrum ríkisstofnunum. Aðstaða fyrir flugdeildina er til staðar á Keflavíkurflugvelli og jafnvel aðrar deildir Landhelgisgæslunnar einnig í byggingum sem Varnarmálastofnun hefur verið að láta taka í gegn og endurbæta síðasta árið.
Myndir: Björgunarþyrlan TF-EIR á Reykjanesi fyrir um ári síðan í verkefni tengdu uppsetningu á myndavél í Eldey. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson