Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aðeins Íslendingum sagt upp
Mánudagur 21. júní 2004 kl. 20:45

Aðeins Íslendingum sagt upp

Aðeins Íslendingum er fórnað á niðurskurðarborðinu hjá Varnarliðinu. Nærri 150 manns hefur verið sagt upp frá því í október á síðasta ári, þar af 20 frá næstu mánaðamótum. Óbreyttum, bandarískum starfsmönnum hefur hins vegar ekki fækkað. Enn á ný hefur verið greint frá uppsögnum hjá Varnarliðinu, en í þetta sinn eiga um 20 starfsmenn von á uppsagnarbréfi. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar er helmingur þeirra starfsmenn slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli, en hluti starfssemi þess verður boðinn út.
Íslenskir ráðamenn hafa lagt á það áherslu, að niðurskurður komi sem jafnast niður á öllum starfsmönnum varnarliðsins. Fjöldi starfsmanna nú og fyrir ári gefur vísbendingu um að svo hafi ekki verið. Fyrsta október 2003 voru íslenskir starfsmenn varnarliðsins 897 talsins, en eru nú 751. Hermenn voru þá 1907, eru nú 1750. Mestu munar um þá sem hurfu af landi brott með kafbátaleitarvélunum. Bandarískir borgaralegir starfsmenn, t.d. kennarar, sérfræðingar og stjórnendur, voru 107. Þeir eru nú 104.
Aðstandendur varnarliðsmanna eru oft í ýmsum störfum hjá varnarstöðinni, aðallega í hlutastörfum. Þeim hefur fjölgað, þeir voru 315, en hefur nú fjölgað í 119. Niðurskurður hefur því, að því er virðist, eingöngu bitnað á íslenskum starfsmönnum varnarliðsins. Flestir þeirra sem reknir hafa verið hafa starfað í skrifstofu- og stjórnunarstörfum. Þrátt fyrir að hermönnum hafi fækkað virðist enn nóg af aðstandendum til að taka að sér ýmis störf. Íslendingar, sem starfa hjá varnarliðinu, hafa ítrekað fullyrt við fréttastofu stöðvar 2 að Bandaríkjamenn hafi gengið í þau störf sem Íslendingar hafa horfið úr.
Friðþór Eydal, talsmaður varnarliðsins, segir þetta ekki rétt, þau störf hafi verið lögð niður. Sumar deildir hafi hins vegar verið endurskipulagðar eftir brottrekstur, og bandarískir starfsmenn kunni að sinna einhverjum hluta þeirra verka, sem Íslendingarnir sinntu áður. Með þessum nýjustu uppsögnum er fjöldi þeirra sem misst hefur vinnuna frá því að uppsagnarbylgjan hófst kominn upp í 146, og öruggt er að framhald verður á. Stöð 2 greindi frá þessu í kvöld.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024