Aðeins hleypt inn í Þórkötlustaðahverfi
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að fólki verði aðeins hleypt inn í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík. „Við þurfum að hafa í huga að þetta er mjög takmörkuð aðgerð af hálfu viðbragðsaðila. Við ætlum að hleypa fólki inn í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík,“ sagði Úlfar í hádegisfréttum RÚV.
Þar kom fram að einn úr hverri íbúð eða fasteign getur mætt á mótsstað á Suðurstrandarvegi við Fagradalsfjall og verður fólk flutt þaðan inn í Grindavík. Úlfar mælir með því að fólk fari saman á bíl frekar en að mæta hver á sínum bíl.