Aðeins einn stakur skjálfti
Engar frekari jarðhræringar hafa orðið á Reykjanesskaganum í kjölfar skjálftans sem reið yfir síðdegis. Þá mældist jarðskjálfti upp á 4,3 á richter um 3,9 kílómetra vestan við Grindavík. Skjálftinn mældist með upptök á 5,8 km. dýpi.
Skjálftans varð greinilega vart í Grindavík þar sem hlutir féllu úr hillum og fólki var mjög brugðið. Í Reykjanesbæ varð bylgjunnar frá skjálftanum vel vart. Þannig fannst hann greinilega í höfuðstöðvum Víkurfrétta og íbúar hafa margir hverjir greint frá því að hafa fundið jarðskjálftann.
Í samtali sem blaðamaður Víkurfrétta átti við Veðurstofu Íslands undir kvöld var allt eins búist við því að eftirskjálfta yrði vart og þeir gætu allt eins mælst um 3 stig á Richter. Hins vegar hefur algjör ró verið á svæðinu í kvöld og engin frekari hreyfing mælst.